FH-ingar fyrstir í undanúrslitin en Stjarnan lagði Blika

Guðmundur Kristjánsson og félagar í FH eru komnir í undanúrslitin.
Guðmundur Kristjánsson og félagar í FH eru komnir í undanúrslitin. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

FH-ingar urðu í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum deildabikars karla í knattspyrnu, Lengjubikarsins, þegar þeir sigruðu Fylki 3:0 í Árbænum.

Þetta var hreinn úrslitaleikur um efsta sætið í þriðja riðli en FH vann hann með 13 stig úr fimm leikjum. Fylkir er með 8 stig eins og KA sem á einn leik eftir en getur ekki náð FH.

Stjarnan lagði Breiðablik að velli, 4:1, í Garðabæ og Blikar töpuðu þar með sínum fyrstu stigum í 2. riðli. Emil Atlason skoraði fyrst og Adolf Daði Birgisson bætti við tveimur mörkum og Stjarnan var komin í 3:0 eftir 23 mínútur. Sölvi Snær Guðbjargarson minnkaði muninn gegn sínu gamla félagi en Ólafur Karl Finsen átti lokaorðið fyrir Stjörnuna á 81. mínútu. Undir lokin fékk Björn Berg Bryde miðvörður Stjörnunnar rauða spjaldið.

Staðan er afar tvísýn fyrir lokaumferðina en Stjarnan er með 10 stig, ÍA 9 og Breiðablik 9 stig. Úrslitin ráðast á mánudagskvöld þegar Stjarnan mætir ÍA og Breiðablik tekur á móti KV. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert