Þrenna á tíu mínútum tryggði Blikum sigur

Jason Daði Svanþórsson.
Jason Daði Svanþórsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik lagði KV 3:0 í síðasta leik liðanna í riðli 2 í A-deild deildabikars karla í knattspyrnu, Lengjubikarsins. Jason Daði Svanþórsson skoraði öll mörk Breiðabliks á síðustu 10 mínútum leiksins.

Jason Daði kom inn á sem varamaður eftir klukkutíma leik og kom sínum mönnum yfir á 81. mínútu. Þremur mínútum síðar tvöfaldaði hann forystuna og í uppbótartíma fullkomnaði hann þrennuna.

Með sigrinum fór Breiðablik í efsta sæti riðilsins og lýkur keppni með 12 stig. Stjarnan opg ÍA mætast í lokaleik riðilsins annað kvöld, sem er hreinn úrslitaleikur, en Stjarnan er með 10 stig og ÍA 9. Sigurliðið vinnur riðilinn og kemst í undanúrslitin, en endi leikurinn með jafntefli verða það Blikar sem hreppa efsta sætið og keppnisréttinn í undanúrslitunum.

Sigurlið riðilsins mætir síðan FH í undanúrslitum en Víkingur R. og KR mætast í hinum undanúrslitaleik mótsins.

KV lauk keppni með 4 stig, á eftir Þór sem fékk 5 stig en á undan Fjölni sem tapaði öllum sínum leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert