Ásta Eir Árnadóttir hefur verið kölluð inn í leikmannahóp íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu sem mætir Hvíta-Rússlandi og Tékklandi í undankeppni HM 2023 í komandi landsleikjaglugga.
Ásta Eir, sem er 28 ára gömul og fyrirliði Breiðabliks, kemur inn í hópinn fyrir liðsfélaga sinn hjá Breiðabliki Natöshu Anasi sem er að glíma við meiðsli.
Ásta á að baki 11 A-landsleiki en hún hefur leikið 129 leiki í efstu deild hér á landi þar sem hún hefur skorað sex mörk.
Ísland mætir Hvíta-Rússlandi í Serbíu hinn 7. apríl og svo Tékklandi í Teplice hinn 12. apríl en íslenska liðið er í öðru sæti C-riðils undankeppninnar með 9 stig eftir fjóra leiki, tveimur stigum minna en Holland, en Ísland á leik til góða á hollenska liðið.