Baldur heim til Húsavíkur

Baldur Sigurðsson klæddist síðast treyju Völsungs árið 2004.
Baldur Sigurðsson klæddist síðast treyju Völsungs árið 2004. Ljósmynd/Græni herinn

Knattspyrnumaðurinn þrautreyndi, Baldur Sigurðsson, er kominn aftur til uppeldisfélags síns Völsungs og mun taka slaginn með Húsvíkingum í 2. deild karla á komandi tímabili.

Baldur, sem verður 37 ára síðar í mánuðinum, lék á síðasta tímabili með Fjölni í 1. deild en var með lausan samning og því frjálst að semja við annað lið.

„Baldur, töluvert hoknari af árum, reynslu og titlum síðan síðast, og knattspyrnuráð voru sammála um að ferlinum yrði ekki hægt að ljúka án þess að ná nokkrum leikjum í grænu!

Baldur færir okkar unga hóp mikið og er meira en til í að leiðbeina strákunum okkar innan sem utan vallar.

Baldur á í safni sínu [tvo] Íslandsmeistaratitla og [fimm] bikartitla auk þess sem hann vann 2. deild með Völsungi árið 2003. Hann varð einnig Íslandsmeistari innanhúss með Völsungi ári áður, sælla minninga.

Við bjóðum Baldur Sigurðsson hjartanlega velkominn í grænt á ný!“ sagði í tilkynningu á Facebook-síðu Græna hersins, knattspyrnudeildar Völsungs.

Einnig var þar tekið fram að sannarlega væri ekki um aprílgabb að ræða og má sannreyna það á heimasíðu KSÍ, þar sem fram kemur að Baldur hafi þegar fengið félagaskipti yfir í Völsung.

Hann hefur á ferlinum leikið með Keflavík, KR, Stjörnunni og FH í efstu deild hér á landi og lék einnig um skeið sem atvinnumaður með SönderjyskE Í Danmörku og Bryne í Noregi.

Baldur er í ellefta sæti yfir leikjahæstu knattspyrnumenn í deildakeppninni hér á landi frá upphafi með 352 leiki, þar sem hann hefur skorað 76 mörk, og þar að auki á hann að baki 37 deildaleiki í Noregi og Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert