Breiðablik tryggði sér deildameistaratitil kvenna í fótbolta með 2:1-sigri á Stjörnunni í úrslitaleik Lengjubikarsins í kvöld. Leikið var á Samsung-vellinum í Garðabænum.
Hildur Antonsdóttir kom Breiðabliki yfir strax á 8. mínútu en Jasmín Erla Ingadóttir jafnaði á 17. mínútu. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Taylor Ziemer sigurmark Breiðabliks.
Katrín Ásbjörnsdóttir fékk besta færi Stjörnunnar í seinni hálfleik en Telma Ívarsdóttir í marki Breiðabliks varði glæsilega frá henni þegar skammt var eftir og Breiðablik fagnaði eins marks sigri.