Breiðablik verður Íslandsmeistari karla í fótbolta í annað skipti árið 2022 ef spádómar Morgunblaðsins fyrir Bestu deild karla ganga eftir.
Tíu af tuttugu sérfræðingum blaðsins spáðu Blikum meistaratitlinum í ár og þeir voru nokkuð afgerandi í efsta sætinu á undan Víkingi og Val sem voru næstum því hnífjafnir í öðru og þriðja sæti. Fjórir spáðu Valsmönnum titlinum og þrír Víkingum, sem þó enduðu tveimur stigum ofar en Hlíðarendaliðið.
Gangi þetta eftir verða Breiðablik, Víkingur og Valur í nokkrum sérflokki í deildinni í ár en fyrirfram virðast þetta verða þrjú líklegustu liðin, enda með mestu breiddina og sterkustu leikmannahópana á pappírunum, og hafa öll styrkt sig verulega í vetur.
Breiðablik átti sitt besta tímabil frá upphafi í fyrra, hvað stigasöfnun varðar, og aðeins mögnuð sigurganga Víkinga kom í veg fyrir að titillinn færi í Kópavog í annað sinn. Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur á tveimur árum náð að koma sínum áherslum í framkvæmd í vel spilandi og kraftmiklu liði sem vill vera með boltann sem mest og gerði það oft listilega vel í fyrra.
Framganga Víkinga í fyrra var óvænt, enda einsdæmi að rísa úr tíunda sætinu í það fyrsta á tólf mánuðum, en þeir stóðu uppi sem Íslands- og bikarmeistarar eftir hreint ótrúlega sigurgöngu seinnihluta tímabilsins.
Hrun Valsliðsins á lokasprettinum í fyrra kom verulega á óvart og það var nánast óskiljanlegt hvernig þetta sterka lið gat dottið alla leið niður í fimmta sætið. Heimir Guðjónsson mætir með tvíefldan mannskap til leiks og Valsmenn sýndu mátt sinn í leikmannakaupum í vetur með því að ná í fjóra menn erlendis frá.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag