Ólafur Jóhannesson, reyndasti þjálfari Bestu deildar karla í fótbolta árið 2022, sagði við mbl.is eftir ósigur FH gegn Íslands- og bikarmeisturum Víkings í upphafsleik Íslandsmótsins á Víkingsvelli í kvöld að þrátt fyrir tapið hefði verið margt gott í leik FH-liðsins.
„Já það var margt jákvætt í þessu í kvöld en mér fannst við ekki byrja leikinn nógu vel, þó það sé erfitt að segja það eftir að hafa skorað mark á fyrstu mínútunni. Mér fannst við ekki nógu góðir fyrsta hálftímann í leiknum. Eftir markið fórum við aftar á völlinn, menn voru kannski hræddir við að koma framar á völlinn og hræddir við að halda boltanum," sagði Ólafur þegar mbl.is ræddi við hann eftir leikinn.
„En svo var þetta bara jafn leikur og mér fannst alltaf liggja mark í loftinu hjá báðum liðum. Það var margt gott í þessu hjá okkur en við fengum ekki nógu mikið út úr öllum hornspyrnunum sem við fengum seinnihluta leiksins. Hornspyrnur eru þannig að ef ekki er gefið almennilega fyrir markið er erfitt að vinna úr þeim og við hefðum mátt vera aðeins betri í þeim.
Ég hef samt engar áhyggjur af liðinu, við erum í fínu standi og núna er það bara næsti leikur," sagði Ólafur Jóhannesson sem í kvöld stýrði sínum 316. leik í efstu deild á ferlinum. FH-ingar eiga heimaleik í annarri umferðinni þegar þeir taka á móti nýliðum Fram í Kaplakrika næsta mánudagskvöld.