Enginn sem fyllir skarð Kára eða Sölva

Oliver Ekroth fylgist með Halldóri Smára Sigurðssyni félaga sínum í …
Oliver Ekroth fylgist með Halldóri Smára Sigurðssyni félaga sínum í hjarta Víkingsvarnarinnar í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Sænski knattspyrnumaðurinn Oliver Ekroth segir að hann geti aldrei fyllt skarð Kára Árnasonar eða Sölva Geirs Ottesens hjá Víkingum en vonast til þess að geta eftir sem áður tekið þátt í að vinna titla með félaginu.

Ekroth lék sinn fyrsta deildarleik fyrir Víking í kvöld þegar Íslands- og bikarmeistararnir unnu FH 2:1 í fyrsta leik Íslandsmótsins á Víkingsvellinum og var að vonum ánægður með úrslitin þegar mbl.is ræddi við hann eftir leikinn.

„Já, sigurinn er það mikilvægasta í kvöld. Við byrjuðum ekki vel og fengum á okkur mark á fyrstu mínútunni en fótboltaleikur tekur 90 mínútur. Það mátti þó finna að menn voru dálítið taugaóstyrkir í byrjun, en eftir að þeir skoruðu tóku við völdin á vellinum og mér fannst við stjórna stórum hluta leiksins," sagði Ekroth.

Þegar við síðan komumst yfir færðumst við aftar á völlinn og þá var líka pressa á okkur með að halda fengnum hlut og ná í stigin þrjú. Það tókst okkur sem betur fer að gera með góðum varnarleik. Við þurftum að verjast fjölmörgum hornspyrnum og fyrirgjöfum og Ingvar varði alla vega einu sinni mjög vel. Sem betur fer náðum við að halda þetta út.

Ég nýt þess að spila hérna, það er virkilega gaman. Við erum með frábæran leikmannahóp, auðvitað er bara einn leikur búinn en við ætlum að slást um titilinn og þessvegna er ég hér. Við viljum vinna leiki og bikara og ætlum okkur að halda áfram á þessari braut allt tímabilið," sagði Ekroth.

Ég vildi takast á við nýja áskorun

Hann er þrítugur miðvörður og stóð sig vel í hjarta Víkingsvarnarinnar í leiknum í kvöld. Ekroth kemur frá Degerfors þar sem hann var fyrirliði liðsins í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og lék þar 26 leiki, og hafði þar á undan spilað nær alla leiki liðsins á þremur árum í B-deildinni.

En hvers vegna kemur leikmaður sem er í stóru hlutverki í sænsku úrvalsdeildinni til Íslands?

„Ég vildi breyta til. Ég hef búið og spilað í Svíþjóð alla ævi og vildi fá nýja áskorun, takast á við eitthvað nýtt. Taka þátt í titilbaráttu og spila Evrópuleiki, til þess er ég hingað kominn og mig langar til að sjá hvert það leiðir mig í fótboltanum. Það eru margir mjög efnilegir leikmenn í hópnum hjá Víkingi ásamt nokkrum reyndari mönnum, og þjálfararnir eru flottir. Ég kann virkilega vel við mig hérna," sagði hann við mbl.is.

Ekroth er m.a. kominn til Víkings þar sem fylla þurfti skörð goðsagna félagsins, Kára Árnasonar og Sölva Geirs Ottesens, sem hættu eftir að hafa tekið á móti tveimur stærstu titlunum með uppeldisfélaginu síðasta haust. Hann sagði að það væri engin sérstök pressa fyrir sig að eiga að leysa þá af hólmi.

„Mér finnst það alls ekki. Það getur enginn einn farið í skóna þeirra og leikið sama hlutverk og þeir gerðu fyrir þetta félag. Þeir áttu báðir magnaðan feril í fótboltanum. Ég er kominn hingað til að gera það sem ég get best, og vonandi get ég staðið mig eins og þeir gerðu," sagði Oliver Ekroth.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert