Fínpússum það í vikunni

Ásta Eir Árnadóttir sækir að Sólveigu Jóhannesdóttur Larsen í dag.
Ásta Eir Árnadóttir sækir að Sólveigu Jóhannesdóttur Larsen í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er alltaf svekkjandi að tapa,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir að liðið tapaði fyrir Val, 2:4, í vítakeppni í Meistarakeppni KSÍ í kvöld.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var markalaus. „Þetta var hörkuleikur og við náðum að halda þeim ágætlega niðri en svona er þetta stundum,“ sagði Ásta. Þrátt fyrir tap í vítakeppni var hún ágætlega sátt við spilamennskuna í dag.

„Ég er nokkuð sátt. Við byrjuðum stressaðar og það var titringur í okkur en þegar leið á leikinn í fyrri hálfleik náðum við að stíga betur inn í þetta og halda boltanum betur. Við getum samt getur betur.

Við þurfum að vanda okkur aðeins betur á síðasta þriðjung. Við vorum að komast í ágætisstöður og verjast vel en það vantaði eitthvað aðeins upp á fram á við. Við fínpússum það í vikunni,“ sagði hún.

Miðjumennirnir Karitas Tómasdóttir og Taylor Ziemer léku í hjarta varnarinnar í dag. „Það er mikið um meiðsli hjá okkur og því hafsentavöntun en ég hef ekki miklar áhyggjur af því. Það verður klárt fyrir fyrsta leik,“ sagði Ásta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert