Mikið áfall að lenda undir á fyrstu mínútu

Víkingar verjast FH-ingum í leiknum í kvöld.
Víkingar verjast FH-ingum í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Halldór Smári Sigurðsson, miðvörður og reyndasti leikmaður Íslands og bikarmeistara Víkings, sagði að það hefði verið áfall að fá á sig mark eftir aðeins hálfa mínútu í upphafsleik Íslandsmótsins í knattspyrnu gegn FH á Víkingsvellinum í kvöld.

„Ég skal viðurkenna að það var rosalegt sjokk að lenda undir strax í byrjun leiks. Mér fannst vera mikil pressa á okkur sem meistara að hefja mótið - og að fá mark á sig eftir hálfa mínútu var bæði áfall og slys. En það var frábært að koma til baka og eftir á að hyggja var betra fyrir okkur sem lið að fá svona leik í fyrstu umferð, þar sem við þurftum að hafa rosalega mikið fyrir sigrinum, í stað þess að vinna einhverja 3:0 og halda að við værum eitthvað frábærir," sagði Halldór Smári við mbl.is.

„Við þurftum heldur betur að hafa fyrir þessum sigri því FH-ingar voru frábærir í kvöld. Það var stórsókn hjá þeim seinni hluta leiksins, FH-ingar sýndu hve sterkir þeir eru, það var erfitt að spila á móti þeim og fáar glufur sem buðust á miðjunni. Við þurftum því að reyna að fara í gegnum kantana á móti þeim, það var í raun það eina sem við gátum gert, sagði Halldór Smári.

Halldór Smári Sigurðsson var sterkur í vörn Víkings í kvöld.
Halldór Smári Sigurðsson var sterkur í vörn Víkings í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Hann tók undir það að eflaust væri fullt af svona hörkuleikjum framundan á nýhöfnu Íslandsmóti.

"Já, algjörlega. Ég vona það, þetta eru skemmtilegustu leikirnir, bæði að horfa á og líka að spila, þegar þetta er svona jafnt og opið fram á síðustu mínútu. Við vonum að deildin verði áfram svona.

Það var hrikalega sætt að ná þessum sigri. Það var sviðsskrekkur í mönnum fyrir leik, ég fann það vel, þannig að það var frábært ná að koma til baka eftir að hafa lent undir, og gera það vel. Það er bara eins gott að það verður," sagði Halldór Smári Sigurðsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert