Íslands- og bikarmeistarar Víkings hófu titilvörnina á því að sigra FH-inga 2:1 í fjörugum upphafsleik Bestu deildar karla í fótbolta á Víkingsvellinum í kvöld.
Íslandsmótið hófst á hreint magnaðan hátt því FH-ingar voru komnir yfir eftir aðeins hálfa mínútu. Eftir innkast frá vinstri sendi Matthías Vilhjálmsson boltann á Steven Lennon sem skaut úr miðjum vítateignum með jörðinni í vinstra hornið, 0:1.
Eftir þunga sókn Víkinga í kjölfarið munaði litlu að Lennon skoraði aftur á 17. mínútu þegar hann fékk boltann frá Eggerti Gunnþóri Jónssyni og rétt innan vítateigs vinstra megin, hárfínt framhjá stönginni fjær.
Helgi Guðjónsson sóknarmaður Víkings komst í gott færi vinstra megin í vítateig FH á 20. mínútu eftir sendingu Erlings Agnarssonar en Gunnar Nielsen varði frá honum í horn.
Á 27. mínútu jöfnuðu Víkingar en þeir náðu boltanum rétt utan vítateigs eftir misheppnaða sendingu FH-ings. Erlingur Agnarsson sendi á Ara Sigurpálsson sem skaut úr miðjum vítateig með jörðinni í vinstra hornið, 1:1.
Engu munaði að Víkingar kæmust yfir á 35. mínútu. Eftir hornspyrnu FH náðu Víkingar skyndisókn, tveir gegn einum, þar sem Ari Sigurpálsson brunaði alla leið inn í vítateig og lagði boltann síðan fyrir Kristal Mána Ingason sem skaut í stöngina og út úr sannkölluðu dauðafæri.
Matthías komst í ágætt færi í vítateig Víkings á 38. mínútu eftir sendingu Lennons og átti hörkuskot rétt yfir þverslána. Staðan var 1:1 í hálfleik.
Víkingar náðu forystunni á 61. mínútu. Eftir stutta hornspyrnu frá vinstri sendi Kristall Máni boltann í átt að stönginni nær, Helgi Guðjónsson kom á ferðinni og náði að sneiða boltann með höfðinu í hornið fjær, 2:1.
Sóknarþungi FH jókst eftir því sem leið á leikinn og á 78. mínútu átti Lennon hörkuskot sem Ingvar Jónsson varði vel í horn.
FH-ingar sóttu áfram og fengu m.a. fjölda hornspyrna á lokakaflanum en Víkingar náðu að standa af sér pressuna og innbyrða sigurinn.
Í heildina séð má segja að sigur Víkinga hafi verið sanngjarn því þeir voru beittari og sköpuðu sér fleiri marktækifæri. Það var t.d. með ólíkindum að þeir næðu ekki forystunni þegar Kristall Máni átti stangarskotið í fyrri hálfleiknum. En FH sýndi að liðið er tilbúið í slaginn gegn þeim liðum sem spáð er efstu sætunum og Hafnfirðingarnir þjörmuðu hressilega að meisturunum á lokakafla leiksins. Þar vantaði kannski aðeins meiri gæði á réttum augnablikum til að knýja fram jöfnunarmark.
Víkingar voru án Pablo Punyeds, sem tók út leikbann, eins og Þórður Ingason markvörður. Pablo var í algjöru lykilhlutverki í fyrra og það munar um hann í svona leik en Víkingar eru komnir með það mikla breidd alls staðar á vellinum að þeir eiga að ráða ágætlega við tilfallandi forföll. Enda er 27 leikja mót að hefjast og því reynir á breiddina enn frekar en nokkru sinni fyrr.
Oliver Ekroth og Halldór Smári Sigurðsson mynduðu miðvarðaparið og Kyle McLagan mátti því sætta sig við hefja Íslandsmótið sem varamaður þó honum væri hent inná til að verja fenginn hlut undir lokin. Ekroth er greinilega öflugur miðv0örður, enda kemur hann beint úr lykilhlutverki í sænsku úrvalsdeildinni, þó hann virtist kannski full stressaður með boltann framan af leiknum.
Davíð Örn Atlason er kominn aftur og lék nú sem vinstri bakvörður en hann, Karl Friðleifur Gunnarsson og Logi Tómasson sjá um bakvarðastöðurnar.
Breiddin hjá Víkingum á miðju og í sókn er mikil sem sést á því að Nikolaj Hansen, markakóngur deildarinnar í fyrra, og Birnir Snær Ingason byrjuðu báðir á bekknum. Miðað við þennan upphafsleik eru Víkingar tilbúnir til að taka upp þráðinn frá því í fyrra og virðast hafa alla burði til að standa undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar sem ríkjandi meistara.
FH er með lið sem á að geta unnið hvaða mótherja sem er, hvenær sem er. En það sem vantaði hjá Hafnarfjarðarliðinu í fyrra var að vinna jöfnu leikina gegn liðunum í efri hluta deildarinnar. FH vann þá aðeins einn leik af tíu gegn liðunum í fimm efstu sætunum, og byrjar því á sama hátt. En þetta var útileikur gegn meisturunum sem margir spá að verji titilinn og ljóst að FH-ingar geta tekið margt úr honum með sér.
Samvinna Matthíasar og Lennons í framlínunni var mjög góð og þeir eiga eftir að hrella allar varnir deildarinnar í ár, miðað við gott form á þeim núna. Varnarleikurinn gæti verið helsta spurningarmerkið, Ástbjörn Þórðarson kemur þó inn sem öflugur hægri bakvörður og Guðmundur Kristjánsson var besti maður liðsins í kvöld í stöðu miðvarðar.
Þá er greinilegt að Kristinn Freyr Sigurðsson mun setja mark sitt á liðið en hann var á bakvið meira og minna allar hættulegustu sóknaraðgerðir FH-inga í leiknum. Hann getur greinilega myndað stórhættulega sóknarþrennu með þeim Matthíasi og Lennon.