Elfar tryggði KA sigur í fyrsta leik

Arnór Ingi Kristinsson tekur á móti boltanum á Dalvík í …
Arnór Ingi Kristinsson tekur á móti boltanum á Dalvík í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Leiknir áttu sinn fyrsta leik í Bestu deildinni í fótbolta karla í dag. Leikið var á Dalvík og fótboltinn sem boðið var upp á var ekki beint glæsilegur.

Fyrri hálfleikur var markalaus en markamaskínan Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði sigurmark KA í seinni hálfleiknum. KA vann 1:0 í fremur tíðindalitlum leik í nepju og kulda.  

Liðin tóku fyrstu mínúturnar í að þreifa fyrir sér og ná úr sér spenningnum en annars var fyrri hálfleikur  afar tilþrifalítill. Heimamenn í KA voru meira með boltann og reyndu sitt til að finna glufur í vörn Leiknis.

Á hinum enda vallarins gerðu KA-menn sitt besta til að gefa Leiknismönnum færi með glæfralegri spilamennsku í öftustu línu. Trekk í trekk komu slæmar sendingar sem hefðu getað fært Leiknismönnum mark. Breiðhyltingar hreinlega unnu illa úr því sem bauðst og náðu ekki almennilegum skotum á markið.

KA átti þrjú góð skot á mark, sem öll voru stöðvuð. Fyrst dúndraði Daníel Hafsteinsson boltanum í hausinn á Óttari Bjarna Guðmundssyni, með þeim afleiðingum að hann þurfti að yfirgefa völlinn. Ásgeir Sigurgeirsson átti næsta skot en það skaut niður Elfar Árna Aðalsteinsson, samherja Ásgeirs.

Bjarni Aðalsteinsson átti svo flott skot úr aukaspyrnu sem Viktor Freyr Sigurðsson sló yfir þverslána. Fleira var það varla í fyrri hálfleiknum og menn ekki beint að skemmta sér á áhorfendapöllunum. 

Seinni hálfleikur var tíu mínútna gamall þegar sigurmark leiksins kom. Ásgeir Sigurgeirsson átti flotta fyrirgjöf af hægri kantinum inn á markteig þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson náði góðum skalla á fjærsvæðið, framhjá varnarlausum Viktori Frey í marki Leiknis. 

KA sigldi svo sigrinum nokkuð örugglega í höfn án þess að Leiknir næði nokkuð að ógna marki KA. 

KA-menn eru sjálfsagt mjög sáttir með stigin sem þeir fengu. Þeir voru þéttir með Rodrigo Gómez framan við vörn sína. Nýju erlendu leikmennirnir í KA komust ágætlega frá sínu en eins og flestir leikmenn KA þá voru þeir ekki að sýna nein snilldartilþrif. 

Leiknismenn voru afar bitlausir í leiknum og aðeins gjafmildi KA-manna kom þeim í færi. Varnarlínan var lengstum góð og Viktor Freyr í markinu var flottur. 

KA 1:0 Leiknir R. opna loka
90. mín. Leiknir R. fær hornspyrnu Síðasti séns.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert