Valur og Breiðablik heyja einvígi um Íslandsmeistaratitil kvenna í fótbolta fjórða árið í röð, og Valskonur hafa betur annað árið í röð, ef spá Morgunblaðsins sem sjá má í Morgunblaðinu í dag gengur eftir.
Þriðja sæti mun hins vegar halda áfram að ganga á milli félaga. Selfoss, Fylkir og Þróttur hafa skipt því á milli sín undanfarin þrjú ár og nú er röðin komin að Stjörnunni, samkvæmt spánni.
Fyrsta umferð deildarinnar er leikin á þriðjudag og miðvikudag en þá mætast ÍBV – Stjarnan, Valur – Þróttur, Breiðablik – Þór/KA, KR – Keflavík og Afturelding – Selfoss.
Valskonur mæta ágætlega sigurstranglegar til leiks með Pétur Pétursson enn við stjórnvölinn og svipað lið og í fyrra, nema hvað Dóra María Lárusdóttir hefur lagt skóna á hilluna og Mary Vignola fór í bandarísku atvinnudeildina. Það munar vissulega um þær tvær.
Meiri óvissa er með keppinautana í Breiðabliki en þar hafa orðið miklar breytingar á leikmannahópnum annað árið í röð og aftur skipt um þjálfara. Ásmundur Arnarsson tók við í miðri keppni í Meistaradeildinni síðasta haust. En það ættu samt að vera allar forsendur fyrir því að Blikar sláist áfram um titlana.
Stjarnan vann sjö stóra titla á árunum 2012-2016 en síðustu ár hefur Kristján Guðmundsson unnið að því að byggja upp nýtt lið í Garðabænum þar sem margar ungar og efnilegar stúlkur hafa komið inn og hlutverk þeirra vaxið ár frá ári.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag