Sannfærandi Stjörnusigur í Breiðholtinu

Jóhann Árni Gunnarsson kemur Stjörnunni yfir úr vítaspyrnu á 3. …
Jóhann Árni Gunnarsson kemur Stjörnunni yfir úr vítaspyrnu á 3. mínútu leiksins í Breiðholti í dag. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Stjarnan vann góðan 3:0 sigur á liði Leiknis í leik liðanna í Bestu deild karla í knattspyrnu í Breiðholti í dag.

Jóhann Árni Gunnarsson kom Stjörnunni yfir strax á þriðju mínútu en hann skoraði úr vítaspyrnu eftir að Bjarki Aðalsteinsson, fyrirliði Leiknis, hafði brotið á Adolfi Daða Birgissyni innan teigs.

Adolf Daði var svo sjálfur á ferðinni á 22. mínútu en þá skoraði hann eftir frábæra sendingu frá Ísaki Andra Sigurgeirssyni.

Þriðja mark Stjörnunnar skoraði Emil Atlason á 69. mínútu leiksins eftir frábæra sendingu frá Óla Val Ómarssyni. Leiknismenn spiluðu síðustu 30 mínútur leiksins manni færri þar sem Emil Berger fékk beint rautt spjald fyrir brot á 63. mínútu leiksins.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn mjög vel og voru ansi líflegir og uppskáru mark strax í byrjun leiksins. Þegar það byrjaði að líða á fyrri hálfleikinn fóru Leiknismenn að vakna til lífsins en því miður fyrir heimamenn náðu þeir ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri þrátt fyrir það að vera meira með boltann. Stjarnan varðist vel og beitti ansi öflugum skyndisóknum og úr einni slíkri skoraði Adolf Daði annað mark gestanna.

Stjarnan byrjaði betur í seinni hálfleik en Óskar Örn Hauksson átti skot að marki Leiknismanna strax eftir 18 sekúndur. Svo var nokkuð jafnræði með liðunum eftir það en það breyttist á 63. mínútu leiksins þegar Emil Berger fékk beint rautt spjald fyrir brot. Í kjölfarið tóku gestirnir öll völd á vellinum og skoraði Emil Atlason þriðja mark leiksins á 69. mínútu leiksins en Óli Valur Ómarsson átti þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Leiknis og þar var Emil og kláraði þetta.

Stjarnan var með yfirhöndina í þessum leik strax frá upphafi og áttu skilið þennan sigur í Breiðholti í dag. Eftir að hafa skorað strax í upphafi leiksins gátu þeir leyft heimamönnum að vera meira með boltann en beita skyndisóknum sem voru að virka mjög vel hjá gestunum í dag. Svo þegar Leiknismenn urðu manni færri var þetta aldrei spurning. Stjarnan hreinlega lék sér að Leiknismönnum á löngum köflum í seinni hálfleik.

Þessi sigur Stjörnunnar þýðir að liðið er komið með fjögur stig eftir tvær umferðir í Bestu deild karla en Leiknir er áfram án stiga en liðið tapaði fyrir KA á Dalvík í síðustu viku. Leiknir leikur næst við ÍBV í Vestmannaeyjum en leikurinn fer fram næsta sunnudag. Stjarnan mætir aftur á móti Vikingum á Víkingsvelli í næstu umferð.

Leiknir R. 0:3 Stjarnan opna loka
90. mín. Einar Karl Ingvarsson (Stjarnan) á skot framhjá Einar Karl með gott skot beint úr aukaspyrnu en þessi fer rétt framhjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert