Viktor Örn Margeirsson varnarmaður Breiðabliks var sáttur með frammistöðu liðsins eftir 1:0-útisigur á KR í Bestu deild karla í knattspyrnu.
„Fyrst og fremst geggjað að taka sigur. Við spilum svolítið þeirra bolta, tökum þá á eigin bragði. Ég er bara fáránlega ánægður með að við lögðum allt í þetta, vorum grjótharðir og tókum sigur.“
Í seinni hálfleik reyndu KR-ingar mikið að sparka boltanum langt fram völlinn í átt að Stefani Ljubicic. Viktor, Damir Muminovic og aðrir í Blika-liðinu gerðu virkilega vel í að glíma við þetta.
„Ég held að þeir hafi ekki skapað almennilegt færi í seinni hálfleik en við vorum full opnir í fyrri. Það er bara skemmtilegt að spila svona af og til þegar það á við. Mér finnst gaman að fá nokkra bolta í teiginn og fá að hreinsa frá.“
Blikar voru stálheppnir að fá ekki sá sig mark eða mörk í fyrri hálfleik en sluppu með skrekkinn.
„Við vorum heppnir að fá ekki á okkur mark en við vorum líka óheppnir að skora ekki. Við færðum Ísak og Jason ofar og fórum aðeins að setja á þá í seinni hálfleik en í grunninn héldum við okkar leik bara áfram.
Það var ekkert rætt að falla svona til baka. Við ætluðum bara að mæta grjótharðir til leiks, kannski taka aðeins minna af hættulegum sendingum því völlurinn er erfiður. Við ræddum ekkert hvað við myndum gerast ef við kæmumust yfir, leikurinn þróast bara og KR er með hörkulið sem setti okkur undir mikla pressu.“