Ásmundur Arnarsson þjálfari Breiðabliks var nokkuð sáttur eftir 4:1-sigur á Þór/KA á Kópavogsvelli í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag.
„Heilt yfir er ég bara mjög sáttur. Það er gott að byrja á tiltölulega öruggum sigri, við ætluðum að byrja að miklum krafti og það tókst ágætlega. Við komumst í 4:0 snemma í seinni hálfleik og þá róast leikurinn aðeins. Það er svona eins og að þá detti aðeins úr okkur krafturinn og við hleypum þeim óþarflega mikið inn í leikinn. Þær fá tvo eða þrjá hættulega möguleika áður en þær skora og það er svona helst það sem við viljum gera betur. Maður biður samt ekkert um meira en 4:1-sigur í fyrsta leik.“
Lið Breiðabliks var talsvert breytt frá síðasta tímabili en þó nokkrir nýjir leikmenn komu við sögu í dag.
„Ég bara sáttur við hópinn í heild. Við erum með öflugan hóp, við erum með samkeppni og við erum með þokkalega breidd. Það er samt ekki alltaf nóg að hafa öfluga einstaklinga, það þarf að búa til lið. Við höfum ekkert haft of mikinn tíma til þess og það er verkefnið framundan. Það er að búa til samstillt lið sem getur keppt á öllum vígstöðvum“
Breiðablik heimsækir Keflavík í næstu umferð. Keflavík vann KR í fyrsta leik sínum í kvöld.
„Það er fullt af hörku liðum í þessari deild og tilfinningin mín er að hún sé að jafnast. Ef ég man rétt þá tókst Breiðabliki ekki að vinna Keflavík í fyrra þannig að við eigum í rauninni harma að hefna. Það er ekkert kæruleysi.“