Breiðablik vann öruggan 4:1-sigur á Þór/KA í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í dag.
Skemmst er frá því að segja að yfirburðir Breiðabliks í fyrri hálfleik voru gífurlegir. Þór/KA var í miklum vandræðum með að halda boltanum og fengu mjög fáar sóknir. Fyrsta mark leiksins kom strax á áttundu mínútu en Hafrún Rakel Halldórsdóttir komst þá inn á teig gestanna og kláraði vel úr frekar þröngu færi. Tíu mínútum síðar átti Ásta Eir Árnadóttir svo fallega fyrirgjöf frá hægri beint á Önnu Petryk sem náði skalla á markið. Harpa Jóhannsdóttir markvörður Þórs/KA varði skallann en boltinn datt beint fyrir fætur Petryk sem skoraði auðveldlega. Hafrún Rakel bætti svo við öðru marki sínu og þriðja marki Breiðabliks eftir hálftíma leik. Alexandra Soree átti þá flotta fyrirgjöf frá hægri og Hafrún kláraði vel.
Seinni hálfleikur var ekki nema tveggja mínútna gamall þegar fjórða markið kom. Taylor Ziemer átti þá glæsilega hornspyrnu sem Natasha Anasi stangaði í netið. Eftir fjórða markið slökuðu Blikar þó aðeins á og hleyptu Þór/KA meira inn í leikinn. Á 86. mínútu minnkaði Margrét Árnadóttir muninn fyrir Þór/KA en fleiri urðu mörkin þó ekki.
Breiðablik er því með þrjú stig eftir einn leik á meðan Þór/KA er án stiga. Í næstu umferð fara Blikar til Keflavíkur á meðan Þór/KA fær Val í heimsókn.