Geggjað að ná þessum áfanga á heimavelli

Kristinn Steindórsson er fyrsti leikmaður karlaliðs Breiðabliks til að skora …
Kristinn Steindórsson er fyrsti leikmaður karlaliðs Breiðabliks til að skora 50 mörk í efstu deild. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Kristinn Steindórsson náði stórum áfanga í kvöld þegar hann skoraði annað mark Breiðabliks í 3:0 sigri á FH í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli.

Þetta var hans 50. mark í efstu deild og Kristinn er að auki fyrsti leikmaður karlaliðs Breiðabliks í sögunni sem nær fimmtíu mörkum í deildinni.

Mbl.is sagði honum frá þessum áfanga eftir leikinn og Kristinn var að vonum ánægður.

„Ég hefði átt að vita þetta, en, já, það er geggjað að hafa náð því og þá er bara að halda áfram að telja. Þetta er flottur áfangi og ekki leiðinlegt að hann komi hérna á heimavelli í sigri á einu af stóru liðunum," sagði Kristinn við mbl.is.

Vissum að þolinmæðin myndi skila þessu

Hann kvaðst að að sjálfsögðu vera ánægður með uppskeru Breiðabliksliðsins sem vann í kvöld sinn þriðja sigur í þremur fyrstu umferðunum og trónir á toppi deildarinnar.

„Algjörlega, ég er mjög sáttur. Þetta hafa verið ólíkir sigrar en allir sætir. Okkur gekk illa að skapa okkur færi í fyrri hálfleiknum í kvöld og FH-ingar gerðu vel að loka ákveðnum svæðum sem við vildum hlaupa í. Svo vantaði stundum að taka réttar ákvarðanir á síðasta þriðjungi vallarins og finna síðustu sendinguna.

En við vissum að þolinmæðin myndi skila þessu og það var gott að fá markið þarna rétt fyrir hálfleik. Það sló þá aðeins í andlitið, á besta tíma, og þá vissum við að þeir þyrftu að koma framar á völlinn í seinni hálfleik og sækja eitthvað. Þá myndum við ná að keyra á þá, ef okkur tækist að skora annað mark. Það kom, og svo það þriðja í kjölfarið, og þá var þetta komið," sagði Kristinn.

Eftir markið í uppbótartíma fyrri hálfleiks var greinilegt á Blikunum í byrjun seinni hálfleiks að þeir ætluðu að láta kné fylgja kviði og bæta við mörkum í stað þess að halda fengnum hlut.

„Já, við töluðum um að halda áfram með það sama, reyna að vera samt aðeins skarpari, bæði þegar við værum að sækja hratt, og svo með því að bæta spilið, og við vissum að þetta myndi opnast þar sem þeir þyrftu að koma framar. Það gerðist," sagði Kristinn.

Ísak gefur okkur nýja vídd

Ísak Snær Þorvaldsson skoraði tvö markanna og hefur komið afar sterkur inn í Blikaliðið í byrjun móts og Kristinn er ánægður með þennan nýja samherja í framlínunni.

„Ja, hann er allt í lagi! Já, hann er búinn að koma skemmtilega á óvart í stöðu sem ekki var búist við að hann myndi spila en hann hefur vaxið þvílíkt hjá okkur. Maður sá á æfingunum, þegar var farið að styttast í mótið, að hann væri á fínni leið, bæði innan hópsins og í því sem við erum að gera.

Svo hefur hann bara verið frábær í þessari stöðu og gefið okkur nýja vídd sem við höfum ekki haft. Hann er fáránlega sterkur og snöggur, en líka klókur og góður á boltann. Hann hefur smellpassað inn í liðið," sagði Kristinn Steindórsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert