Stigin eru góð en frammistaðan dýrmæt

Óskar Hrafn Þorvaldsson klappar fyrir stuðningsfólki Breiðabliks eftir leikinn í …
Óskar Hrafn Þorvaldsson klappar fyrir stuðningsfólki Breiðabliks eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Stigin eru góð en frammistaðan er dýrmæt á þessum tíma og það er gott að vita að hún er til staðar," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks við mbl.is eftir sigurinn á FH, 3:0, í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

Blikar eru með níu stig og Óskar tók undir að það væri vissulega góð byrjun en hann væri ánægður með fleira.

„Auðvitað er alltaf gott að vinna leiki en það sem er mikilvægast fyrir okkur er frammistaðan í dag. Ég veit að mönnum verður tíðrætt um frammistöðu en hún getur verið margskonar. Þú getur harkað út sigur, lagt þig fram og verið meira í iðnaðarmanninum, eins og við vorum á mánudaginn (gegn KR).

Svo koma leikir eins og þessi þar sem fara saman gott spil, kraftmikill sóknarleikur og svo frábær varnarleikur út um allan völl. Það er maður ánægðastur með því það finnst mér vera sjálfbært - það er eitthvað sem getur haldið áfram inn í mótið og það er gott að vita af því. Þú veist afhverju þú spilar vel og afhverju þú vinnur leiki.

Það er dýrmætast fyrir okkur á þessari stundu en auðvitað er gaman og notalegt að uppskera, sagði Óskar Hrafn við mbl.is.

Þeir lögðu fyrir okkur heljarinnar próf

Blikar náðu ekki að skapa sér teljandi marktækifæri í fyrri hálfleik, fram að markinu á 45. mínútu, þrátt fyrir talsverðan sóknarþunga á köflum.

„Nei, þeir lögðu fyrir okkur heljarinnar próf og við töluðum um það inni í miðjum leik að við yrðum að vera þolinmóðir því það fer mikil orka í að verjast eins og FH-ingar vörðust. Þó þeir hafi verið aftarlega á vellinum þá útheimtir þetta löng hlaup og menn verða að vera mjög agaðir.

Ísak Snær Þorvaldsson, Kristinn Steindórsson og Gísli Eyjólfsson í leikslok.
Ísak Snær Þorvaldsson, Kristinn Steindórsson og Gísli Eyjólfsson í leikslok. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Auðvitað var afar mikilvægt að ná marki rétt fyrir hálfleik og það gjörbreytti dýnamíkinni í leiknum, en mér fannst við aldrei verða óþolinmóðir. Það er rosalega auðvelt að fara bara í að henda endalaust löngum boltum fram og ætla einhvern veginn að skora. En við vorum trúir því sem við höfum verið að gera og á endanum – er ekki talað um að dropinn holi steininn? – þá ferðu í gegn.

Svo í seinni hálfleik þegar FH-ingar þurftu að færa sig aðeins framar, þá raknaði þetta aðeins upp hjá þeim og við hefðum getað skorað töluvert fleiri mörk en við gerðum.

En þetta mót er víst bara nýbyrjað, það eru 24 leikir eftir og 72 stig í pottinum. Sex mánuðir í viðbót, en þetta er rosalega gaman og deildin fer vel af stað. Það er fjör á pöllunum, félögin eru öll að reyna að búa til stemningu, og það er að takast, sem er frábært. Vonandi heldur það áfram," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert