Aron Þórður í KR

Aron Þórður Albertsson í KR-treyjunni í dag.
Aron Þórður Albertsson í KR-treyjunni í dag. Ljósmynd/KR

Knattspyrnumaðurinn Aron Þórður Albertsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild KR þar sem hann mun leika með karlaliðinu.

Aron Þórður kemur frá Fram, þar sem hann hefur leikið frá því um mitt sumar 2020.

Hann var í lykilhlutverki á miðju Framara þegar liðið gjörsigraði 1. deildina á síðasta tímabili en hefur ekkert komið við sögu á yfirstandandi tímabili.

Aron Þórður, sem getur einnig leyst stöðu bakvarðar, hefur einnig leikið með Þrótti úr Reykjavík og HK á meistaraflokksferli sínum og lék með Breiðabliki í yngri flokkum.

Alls á hann 131 leik að baki í efstu tveimur deildunum hér á landi þar sem hann hefur skorað tíu mörk.

Þar af hefur Aron Þórður leikið 26 leiki í efstu deild og skorað þrjú mörk í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert