Samantha Leshnak, bandaríski markvörðurinn hjá Keflavík, fékk hæstu mögulega einkunn hjá Morgunblaðinu, 3 M, fyrir magnaða frammistöðu í sigurleiknum gegn Breiðabliki í fyrrakvöld.
Samantha hefur haldið hreinu í fyrstu tveimur leikjum liðsins í Bestu deild kvenna í fótbolta og Keflavík er mjög óvænt á toppi deildarinnar.
Þetta var umferð markvarðanna því Harpa Jóhannsdóttir úr Þór/KA og Tiffany Sornpao hjá Selfossi fengu báðar 2 M en missa samt af sæti í úrvalsliði 2. umferðar vegna frammistöðu Samönthu.
Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir úr Stjörnunni er sú fyrsta sem er valin tvisvar í lið umferðarinnar hjá Morgunblaðinu.
Úrvalsliðið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.