Frammistaðan er það sem þetta snýst um

Halldór Árnason og Óskar Hrafn Þorvaldsson
Halldór Árnason og Óskar Hrafn Þorvaldsson Eggert Jóhannesson

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var sáttur þegar blaðamaður mbl.is talaði við hann eftir 5:1 sigur á ÍA í Bestu deild karla í fótbolta á Akranesi fyrr í dag.

„Þetta var öflug frammistaða, við náðum frumkvæðinu snemma og höldum því út leikinn," sagði Óskar. 

„Mér fannst mitt lið vera tilbúið í slaginn, frammistaðan var góð bæði varnarlega og sóknarlega frá fyrstu mínútu. Það hefur sýnt sig hingað til á þessu móti að það er ekki auðvelt að koma hingað og vinna, til þess þarf að vera vel kveikt á þér frá fyrstu mínútu og við náðum því í dag.“

Aðspurður út í hvort honum þótti byrjun tímabilsins vera framar væntingum hafði Óskar þetta að segja: „ Þú rennir alltaf að einhverju leyti blint í sjóinn þegar tímabilið byrjar, þú vonar að liðið sé á góðum stað og að vinnan sem leikmennirnir lögðu í vetur sé til staðar og skili sér í góðu formi, en maður veit það í raun og veru aldrei.“

„Við setjum okkur ekki endilega einhver stigafjölda, en frammistaðan er búin að vera góð, sem er gleðilegt, og það er auðvitað það sem þetta snýst um. Ef stigin koma með þá er það frábært en meginatriðið er að frammistaðan sé til staðar svo það geti verið framhald í þessu“. 

Næsti andstæðingur Breiðabliks er Stjarnan á Kópavogsvelli. 

„Við megum búast við hörkuleik þar á milli tveggja orkumikla liða, Stjarnan byrjar þetta mót vel og er öflugt lið þannig ég býst við engu öðru nema hörkuleik þar,“ sagði Óskar Hrafn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka