Enginn byrjað betur en Ísak í 26 ár

Guðmundur Benediktsson skoraði grimmt í KR-búningnum og vorið 1996 skoraði …
Guðmundur Benediktsson skoraði grimmt í KR-búningnum og vorið 1996 skoraði hann sjö mörk í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísak Snær Þorvaldsson hefur heldur betur slegið í gegn með Breiðabliki og skorað sex mörk í fyrstu fjórum umferðunum í Bestu deild karla í fótbolta.

Hann gerði tvö mörk gegn Keflavík í fyrstu umferð, tvö gegn FH í þriðju umferð og tvö gegn ÍA í fjórðu umferðinni í gær.

Enginn hefur byrjað deildina betur í heil 26 ár, eða síðan Guðmundur Benediktsson skoraði sjö mörk í fyrstu fjórum leikjum KR-inga vorið 1996.

Guðmundur fékk reyndar harða keppni frá sautján ára gömlum Skagamanni, Bjarna Guðjónssyni, sem skoraði fimm mörk í fyrstu tveimur leikjum ÍA en ekki í næstu leikjum þar á eftir. 

Ísak Snær Þorvaldsson í þann veginn að skora annað marka …
Ísak Snær Þorvaldsson í þann veginn að skora annað marka sinna fyrir Breiðablik gegn ÍA í gær. Ljósmynd/Skagafréttir

Frá árinu 1996 hafa aðeins tveir leikmenn náð að leika sama leik og Ísak Snær og skora sex mörk í fyrstu fjórum umferðunum.

Steingrímur Jóhannesson gerði það fyrir ÍBV vorið 1999 og síðan Hilmar Árni Halldórsson fyrir Stjörnuna vorið 2018.

Steingrímur var afar frískur í fyrstu umferðunum tvö ár í röð því vorið 1998 skoraði hann fimm mörk í fyrstu þremur mörkum ÍBV og átta í fyrstu fimm leikjunum.

Fyrir rúmum sextíu árum hóf Þórólfur Beck Íslandsmótið 1961 á svipaðan hátt með KR og Guðmundur Benediktsson  gerði 1996 en hann skoraði þá sjö mörk í fyrstu fjórum leikjunum. Þórólfur endaði á að skora sextán mörk í átta leikjum með KR, sem var nýtt markamet, en á þeim árum voru aðeins tíu umferðir í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert