Arna Eiríksdóttir, miðvörður Þórs/KA, var öflug í vörn liðsins og skoraði sigurmarkið í naumum 2:1-sigri á nýliðum Aftureldingar í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í Mosfellsbænum í dag.
„Þetta var jafn leikur. Mér fannst við byrja þetta sterkt. Eftir að við skoruðum, sem var reyndar í fyrstu sókn, þá leyfðum við okkur aðeins að slaka á og þær voru komnar vel inn í leikinn í lok fyrri hálfleiks.
Svo var bara mjög mikið jafnvægi með liðunum í seinni hálfleik og svo reyndist eitt mark munurinn,“ sagði Arna í samtali við mbl.is eftir leik.
Hún sagði það ekki hafa komið Norðankonum á óvart hvernig Afturelding spilaði, en Mosfellingar lögðu upp með að pressa hátt á vellinum.
„Nei í rauninni ekki. Mér fannst við leysa það ágætlega þegar þær pressuðu. Yfirleitt spörkuðum við bara út og þegar við spiluðum í gegnum pressuna þá gekk það yfirleitt vel.“
Arna skoraði sem áður segir sigurmarkið. Varnarjaxlinn er hættuleg í föstum leikatriðum og það kom á daginn í dag þegar hún skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu.
„Sem varnarmaður er það svo sem ekkert endilega markmið mitt fyrir leik að skora en það er alltaf gott þegar það kemur og alltaf gott að geta hjálpað liðinu,“ sagði hún.
Þór/KA fór með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar.
„Við náttúrlega einbeitum okkur bara að því að reyna að vinna hvern einasta leik. Við tökum bara einn leik í einu og reynum að fá þrjú stig í hverjum einasta þeirra. Auðvitað viljum við vera í efri helmingnum.“