Blikar áfram með fullt hús

Ísak Snær Þorvaldsson með boltann í leiknum í kvöld.
Ísak Snær Þorvaldsson með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik vann 3:2 sigur á liði Stjörnunnar í Bestu deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. Breiðablik byrjar þetta tímabil með látum en liðið er á toppnum í Bestu deild karla með fullt hús stiga eftir fimm umferðir og markatöluna 16:4. Þetta var fyrsta tap Stjörnunnar á þessu tímabili en liðið hafði fyrir þennan leik unnið tvo leiki og gert tvö jafntefli.

Dagur Dan Þórhallsson kom liði Breiðabliks yfir með marki á 15. mínútu leiksins en Jason Daði Svanþórsson átti þá sendingu fyrir mark Stjörnunnar sem Haraldur Björnsson í marki Stjörnunnar sló út í teiginn og þar var Dagur Dan klár og setti boltann í netið. Jason Daði Svanþórsson skoraði sjálfur annað mark Breiðablik á 24. mínútu en þá fékk frábæra sendingu inn fyrir vörn Stjörnumanna frá Viktori Erni Margeirssyni og renndi boltanum framhjá Haraldi og kom þeim grænklæddu í 2:0.

Stjörnumenn náðu að minnka muninn 37. mínútu en þá skoraði Guðmundur Baldvin Nökkvason beint úr hornspyrnu. Anton Ari Einarsson og aðrir leikmenn Breiðabliks voru ekki sáttir og vildu meina að brotið hefði verið á Antoni í markinu en Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, sá ekkert athugavert við þetta og dæmdi markið gilt.

Bráttan hélt svo sannarlega áfram í seinni hálfleik Jason Daði fékk frábært færi á 63. mínútu en þá missti Þórarinn Ingi Valdimarsson boltann í vörn Stjörnunnar en Haraldur Björnsson varði mjög vel frá Jasoni Daða. Á 79. mínútu náðu Stjörnumenn að jafna metin en þá átti Ólafur Karl Finsen góða sendingu fyrir mark Breiðabliks og þar var Emil  Atlason sem hamraði boltann í netið. Tók hann á lofti.

En það voru heimamenn sem áttu síðasta orðið í leiknum en á 85. mínútu tók Jason Daði hornspyrnu og sendi stuttan bolta á Höskuld Gunnlaugsson og hann sendi boltann fyrir og þar reis Viktor Örn Margeirsson hæst og skallaði boltann í netið. Glæsilegt mark og endaði sem sigurmark Blika í þessum leik.

Það er stutt á milli leikja núna í Bestu deild karla í knattspyrnu. Stjötta umferðin hefst á sunnudaginn en þá mætir Stjarnan liði Valsmanna í Garðabænum en Breiðablik fer í Víkina á mánudagskvöldið og mætir liði Víkings.

Breiðablik 3:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Ísak Andri Sigurgeirsson (Stjarnan) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert