Fyrsti sigur Framara kom í Breiðholti

Framarinn Hlynur Atli Magnússon í baráttunni í Breiðholtinu í kvöld.
Framarinn Hlynur Atli Magnússon í baráttunni í Breiðholtinu í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fram vann góðan 2:1 sigur á liði Leiknis í Bestu deild karla í knattspyrnu í Breiðholti í kvöld. Það var Frederico Saraiva sem skoraði fyrra mark Fram á 11. mínútu eftir laglegt einstaklingsframtak en Emil Berger jafnaði metin með góðu skoti á 64. mínútu leiksins. En það var varamaðurinn Guðmundur Magnússon reyndist vera hetja gestanna en hann skoraði glæsilegt mark á 72. mínútu og tryggði Fram sigur í leiknum.

Þetta er fyrsti sigur Fram á þessu tímabili en liðið er núna með fimm stig eftir sex leiki. Leiknir er áfram án sigurs í deildinni en liðið situr á botninum eftir leiki kvöldsins með aðeins tvö stig.

Það var lítið að gerast í byrjun leiks en á 11. mínútu átti Frederico Saraiva góðan sprett upp völlinn og lét vaða á markið og boltinn söng í netinu. Virkilega smekklegt mark hjá Fred. Eftir markið bakkaði Fram aðeins og leyfði Leiknismönnum að vera með boltann en heimamenn náðu ekki að skapa sér mörg færi. Þeir fengu þó nokkur færi en ekkert betra en það sem Róbert Hauksson fékk á 24. mínútu leiksins en þá fékk hann sendingu inn fyrir vörn Fram en Ólafur Íshólm Ólafsson varði vel frá honum. Maciej Makuszewski fékk sömuleiðis fínt færi á 42. mínútu eftir aukaspyrnu Emil Berger en Maciej setti boltann yfir mark Fram.

Í seinni hálfleik fóru menn í það fyrst og fremst að safna gulum spjöldum á fyrstu tíu mínútum hálfleiksins en það komu þrjú slík á þeim tíma. Heimamenn voru þó líklegri að skora í byrjun seinni hálfleiks og það var einmitt það sem þeir gerðu á 64. mínútu. Þá fékk Maciej Makuszewski góða sendingu inn á teiginn en hann virtist vera að missa boltann frá sér en kom boltanum út á Emil Berger sem skaut föstu skoti í hægra hornið og jafnaði metin. Strax eftir markið gerði Fram tvöfalda skiptingu en meðal annars kom Guðmundur Magnússon inn á völlinn og hann var ekki lengi að koma gestunum yfir en á 72. mínútu fékk hann góða sendingu frá Alberti Hafsteinssyni. Guðmundur var við vítateigshornið og fór af stað, kom sér í skotfæri og skaut að marki og þessi flaug beint í netið. Virkilega vel gert hjá Guðmundi. Leiknismenn voru ansi nálægt því að jafna metin á 83. mínútu en þá fékk Róbert Hauksson flotta sendingu frá Mikkel Dahl en Ólafur Íshólm Ólafsson varði vel frá Róberti.

Næsta verkefni Leiknis í Bestu deild karla í knattspyrnu er leikur gegn KR á Meistaravöllum á laugardaginn en Fram fer á Kópavogsvöll næsta sunnudag og mætir liði Breiðabliks.

Leiknir R. 1:2 Fram opna loka
90. mín. Það eru fjórar mínútur í uppbótartíma hér í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert