Eyjakonur sóttu þrjú stig í Kópavoginn

Alexandra Jóhannsdóttir úr Breiðabliki fer framhjá Eyjakonunni Hönnu Kallmaier á …
Alexandra Jóhannsdóttir úr Breiðabliki fer framhjá Eyjakonunni Hönnu Kallmaier á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

ÍBV gerði afar góða ferð í Kópavog þegar liðið vann sterkan 1:0-sigur á heimakonum í Breiðabliki í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var fjörugur þar sem fjöldi færa leit dagsins ljós.

Eina mark leiksins kom á 13. mínútu. Það skoraði Júlíana Sveinsdóttir, miðvörður ÍBV, með þrumuskoti lengst utan af velli sem fór yfir Telmu Ívarsdóttur í marki Breiðabliks.

Í kjölfar marksins voru Eyjakonur þéttar fyrir, léku góðan varnarleik og voru hættulegar í skyndisóknum.

Þrátt fyrir að Blikar voru ekki upp á sitt besta í hálfleiknum sköpuðu heimakonur sér nokkur frábær færi en ávallt fóru marktilraunir þeirra ýmist rétt framhjá eða í varnarmenn Eyjakvenna á ögurstundu.

ÍBV leiddi því með einu marki í leikhléi.

Síðari hálfleikur var öllu tíðindaminni.

Blikar héldu boltanum og reyndu að skapa sér færi en höfðu lengi vel ekki erindi sem erfiði gegn þéttum Eyjakonum.

Á 72. mínútu náði Heiðdís Lillýardóttir hörkuskalla eftir hornspyrnu Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur frá hægri en hann hafnaði í þverslánni áður en Eyjakonur komu boltanum frá.

Áfram reyndu Blikar að knýja fram jöfnunarmark en tókst ekki að skapa sér nein opin færi.

ÍBV hélt út og tryggði sér þannig frækinn eins marks sigur.

Með sigrinum fara Eyjakonur upp í sjötta sæti deildarinnar þar sem liðið er nú með sjö stig eftir fimm leiki.

Breiðablik er hins  vegar í fjórða sæti með níu stig, einnig eftir fimm leiki.

Breiðablik 0:1 ÍBV opna loka
90. mín. Kristjana Kristjánsdóttir Sigurz (Breiðablik) á skot framhjá +2 Fær fyrirgjöf á lofti og reynir skot innan teigs en hittir boltann engan veginn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka