Alexandra Jóhannsdóttir, miðjumaður Breiðabliks og landsliðskona í knattspyrnu, var að vonum svekkt eftir 0:1-tap liðsins gegn ÍBV í 5. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld.
„Þetta var bara ógeðslega leiðinlegt og ógeðslega svekkjandi. Mér fannst við byrja mjög vel og skapa okkur færi. Við fáum svo skítamark á okkur, það má bara segja það. Eftir það fannst mér við svolítið detta niður en við fengum svo alveg sénsa til þess að jafna leikinn. Ég held að ég hafi fengið tvo góða sénsa,“ sagði Alexandra í samtali við mbl.is eftir leik.
„Í seinni hálfleiknum fannst mér við byrja eins og við værum rosalega stressaðar yfir því að þurfa að skora mark. Þar af leiðandi sköpuðum okkur engin dauðafæri þannig séð, svona einhver hálffæri. Fyrirgjafir voru ekki að koma á réttum tíma og hlaupin hjá okkur miðjumönnunum voru ekkert frábær heldur,“ bætti hún við.
Spurð hvað hafi valdið því að Blikar hafi ekki náð að skapa sér nein færi að ráði í síðari hálfleik öfugt við þann fyrri þegar nokkur mjög góð tækifæri litu dagsins ljós sagði Alexandra:
„Þær voru svakalega þéttar, þær voru með fimm í öftustu línu og ég held að þær hafi varla farið yfir miðju í seinni hálfleik. Það sýnir bara hversu þétt liðið var, sem ég skil alveg. Þær eru einu marki yfir, þær þurfa ekki að skora og það erum við sem þurfum að sækja.
En við bara nýttum það ekki og svæðin sem við vorum að reyna að komast í, við náðum ekki að komast í þau. Mér fannst sem við værum ekki að gera þá hluti sem við lögðum upp með og þar af leiðandi skorar maður ekki.“
Þrátt fyrir að hafa tapað tveimur af fyrstu fimm leikjum tímabilsins sagði hún Breiðablik síður en svo vera búið að leggja árar í bát.
„Þessi leikur er bara búinn og það þýðir ekkert annað en að horfa fram á við. Það þýðir ekkert að pæla í þessu mikið lengur en það eru öll lið að stela stigum af hvoru öðru þannig að þetta er ekki búið í fimmtu umferð.
Maður hefur ekkert áhyggjur af því. Það þýðir ekkert annað en að pæla bara í næsta leik og ná í þrjú stig þar og það er það sem við stefnum að núna,“ sagði Alexandra að lokum í samtali við mbl.is en hún er í láni hjá Breiðabliki til júníloka frá Eintracht Frankfurt í Þýskalandi.