KR og Leiknir úr Reykjavík gerðu 1:1-jafntefli þegar liðin mættust í 7. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í dag. Leikurinn var kaflaskiptur þar sem KR var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Leiknir í þeim síðari.
Leikurinn fór fjörlega af stað og fengu gestirnir í Leikni fyrsta færi hans strax á fjórðu mínútu.
Róbert Hauksson átti þá frábæran sprett upp hægri kantinn þar sem hann fór framhjá tveimur KR-ingum, lagði boltann út á Maciej Makuszewski sem reyndi að skrúfa boltann upp í samskeytin við vítateigslínuna en skotið yfir markið.
KR náði hins vegar forystunni á tíundu mínútu með sínu fyrsta skoti í leiknum. Aron Kristófer Lárusson gaf þá fyrir af vinstri kanti, Stefan Ljubicic og Gyrðir Hrafn Guðbrandsson börðumst um boltann en náðu hvorugir til hans, Hallur Hansson beið hins vegar átekta og stýrði boltanum af harðfylgi í netið af stuttu færi og skoraði þar með sitt fyrsta mark fyrir KR.
Skömmu síðar var Dagur Austmann Hilmarsson nálægt því að skora sjálfsmark þegar Arnór Ingi Kristinsson samherji hans hreinsaði boltanum í hann en Viktor Freyr Sigurðsson náði að grípa boltann.
Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði svo á 16. mínútu leiksins eftir fyrirgjöf Kennie Chopart en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Eftir þessa fjörugu byrjun hægðist talsvert á leiknum og tókst hvorugu liðinu að skapa sér opin marktækifæri það sem eftir var af fyrri hálfleiknum.
KR leiddi því verðskuldað með einu marki í leikhléi.
Leiknismenn mættu hins vegar afar áræðnir til leiks í síðari hálfleik og uppskáru fljótt jöfnunarmark.
Það kom á 54. mínútu. Daði Bærings Halldórsson, sem hafði komið inn á sem varamaður í hálfleik, tók þá hornspyrnu frá hægri, fann Róbert á nærstönginni sem náði lausu skoti að marki, Beitir Ólafsson náði ekki að halda boltanum og Mikkel Dahl potaði honum í netið af örstuttu færi.
Leiknismenn voru áfram líflegir á meðan KR-ingar vissu ekki alveg hvaðan á þá stóð veðrið.
KR gerði þrefalda skiptingu eftir tæplega klukkutíma leik og fékk einn varamannanna, Kjartan Henry Finnbogason, sannkallað dauðafæri á 70. mínútu. Hann slapp þá aleinn í gegn en ristarskot hans fór of nálægt Viktori Frey sem varði vel út í teiginn áður en Leiknismenn hreinsuðu frá.
Í kjölfarið voru Leiknismenn líklegri og fengu nokkur frábær færi en í tvígang varði Beitir vel og í eitt skipti fór skot Róberts af varnarmanni og þaðan í fang Beitis.
Í uppbótartíma átti Chopart fínt skot rétt fyrir utan teig en það hafnaði ofan á markinu.
Fleiri urðu færin ekki og sættust liðin því á sitt hvort stigið.
Eftir afar sterka byrjun KR-inga í upphafi leiks fjaraði undan leik þeirra og þá sérstaklega í síðari hálfleik á meðan Leiknismönnum óx ásmegin og hefðu gestirnir hæglega getað krækt í sinn fyrsta sigur á tímabilinu.
Úrslitin þýða að KR heldur kyrru fyrir í 5. sæti, nú með 11 stig, og Leiknir er áfram á botni deildarinnar með þrjú stig líkt og ÍBV í sætinu fyrir ofan.