Breiðablik er áfram með fullt hús stiga í Bestu deild karla í fótbolta eftir 4:3-heimasigur á Fram í ótrúlegum leik í 7. umferðinni í kvöld. Breiðablik er nú með fimm stiga forskot á KA á toppi deildarinnar.
Breiðablik byrjaði af krafti og Gísli Eyjólfsson átti fyrstu tilraunina á þriðju mínútu er hann skaut rétt yfir af rúmlega 20 metra færi. Örskömmu síðar átti hann skot úr teignum en þá fór boltinn í Ísak Snæ Þorvaldsson og rétt framhjá.
Fyrsta markið kom á 7. mínútu og það gerði Kristinn Steindórsson er hann lagði boltann í netið úr teignum eftir sendingu frá Degi Dan Þórhallssyni. Aðeins tveimur mínútum síðar var Kristinn búinn að tvöfalda forystuna með marki úr víti eftir Már Ægisson braut á Ísaki Snæ Þorvaldssyni innan teigs.
Framarar komust lítið yfir miðju fyrstu 25 mínúturnar og kom það því ansi mikið á óvart þegar Guðmundur Magnússon minnkaði muninn á 27. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Portúgalanum Tiago.
Kristinn Steindórsson fékk dauðafæri til að fullkomna þrennuna og koma Breiðabliki aftur yfir á 33. mínútu þegar Alex Freyr Elísson braut á Gísla Eyjólfssyni innan teigs. Kristinn fór aftur á punktinn en negldi boltanum hátt yfir markið.
Guðmundur Magnússon var hársbreidd frá því að skora sitt annað mark og annað mark Fram í uppbótartíma í fyrri hálfleik þegar hann slapp einn í gegn en setti boltann hársbreidd framhjá. Staðan í leikhléi var því 2:1, Breiðabliki í vil.
Framarar jöfnuðu á 58. mínútu þegar Brasilíumaðurinn Fred skoraði beint úr aukaspyrnu á vinstri kantinum. Ætlaði hann að gefa fyrir en boltinn fór í gegnum þvögu og í fjærhornið.
Þremur mínútum síðar var Breiðablik aftur komið yfir. Oliver Sigurjónsson átti þá sendingu inn í teiginn og Höskuldur Gunnlaugsson skallaði í netið, óvaldaður í miðjum teignum.
Fram jafnaði hinsvegar aftur strax í næstu sókn þegar Jannik Pohl slapp einn í gegn. Daninn var óeigingjarn og gaf fyrir markið á Tiago sem potaði boltanum í netið af stuttu færi og staðan 3:3 þegar tæpur hálftími var eftir af venjulegum leiktíma.
Fram komst í tvígang nálægt því að skora stundarfjórðungi fyrir leikslok en Anton Ari Einarsson varði fyrst glæsilega frá Tryggva Snæ Geirssyni og síðan Fred örskömmu síðar. Omar Sowe kom síðan boltanum í markið fyrir Breiðablik skömmu síðar en hann var í rangstöðu og markið taldi ekki.
Sowe var hinsvegar aftur á ferðinni á 87. mínútu með sigurmarkið. Hann kláraði þá glæsilega í bláhornið rétt utan teigs. Urðu mörkin ekki fleiri og Breiðablik fagnaði sigri í mögnuðum fótboltaleik.