„Þessi úrslit eru gríðarleg vonbrigði,“ sagði Heiðdís Lillýardóttir, varnarmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 0:1-tap liðsins gegn Val í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í 6. umferð deildarinnar á Kópavogsvelli í Kópavogi í kvöld.
„Mér fannst við eiga góðan leik og heilt yfir þá vorum við sterkari aðilinn en okkur tókst hins vegar ekki að koma boltanum í netið og þar við sat. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er sem er að hrjá okkur upp við markið en kannski er hausinn eitthvað að stríða okkur.
Mér fannst við halda boltanum betur en þær og við sköpuðum okkur betri færi en þær. Ég man ekki eftir mörgum færum sem þær fengu en ég man hins vegar sérstaklega eftir því að við fengum fullt af hornspyrnum í þessum leik. Við áttum að nýta þær betur og auðvitað vítaspyrnuna líka,“ sagði Heiðdís.
Breiðablik tapaði einungis fjórum leikjum allt síðasta sumar en liðið hefur tapað þremur leikjum í deildinni það sem af er tímabili.
„Það hafa miklar breytingar átt sér stað og við fengum marga nýja leikmenn rétt fyrir mót. Við erum að spila okkur saman og það mun taka tíma en á sama tíma er stemningin frábær í hópnum.
Það þýðir ekki velta sér of mikið upp úr því sem er búið og gert. Núna tekur bara við næsti leikur og það er það eina sem við erum að hugsa um. Deildin er jafnari en í fyrra að mínu mati og það virðist vera sem svo að það geti allt gerst.“
Blikar hafa fengið þrjú víti í deildinni í sumar en aðeins tekist að skora úr einu þeirra. Af hverju gengur liðinu svona illa að skora úr vítaspyrnum?
„Ég veit það hreinlega ekki. Kannski þurfum við að fara leggja meiri áherslur á vítaspyrnur á æfingasvæðinu,“ bætti Heiðdís við í samtali við mbl.is.