Átta deildarsigrar af átta

Kristinn Steindórsson framherji Breiðabliks með Emil Berger miðjumann Leiknis á …
Kristinn Steindórsson framherji Breiðabliks með Emil Berger miðjumann Leiknis á hælunum. mbl.is/Óttar Geirsson

Breiðablik er enn með fullt hús stiga eftir átta umferð eftir 2:1 sigur á Leikni Reykjavík í í Bestu deild karla í fótbolta á Domusnova-vellinum í Breiðholti í kvöld.

Róbert Hauksson skoraði mark Leiknis. Ísak Snær setti bæði mörk Breiðabliks. 

Fyrri hálfleikurinn fór af stað tiltölulega rólega, Breiðablik hélt að mestu boltanum en náði ekki að skapa sér mikið af færum. 

Það breyttist hinsvegar á 28. mínútu þegar að Jason Daði Svanþórsson laumaði boltanum í gegn á Ísak Snæ sem vippaði boltanum listilega yfir Viktor Frey Sigurðsson í markinu, 1:0 og Blikarnir óstöðvandi. 

Bæði lið fengu ágætis færi það sem eftir var af fyrri hálfleiknum en inn vildi boltinn ekki og hálfleiksstaða í Breiðholtinu því 1:0 Breiðablik í vil. 

Ísak Snær var aftur á skotskónum þegar það voru aðeins þrjár mínútur liðnar af síðari hálfleiknum. Hann fékk boltann frá Höskuldi Gunnlaugssyni eftir darraðadans inn á teignum og smellti honum í fjærhornið neðra, 2:0 og Blikarnir komnir í ansi þægilega stöðu.  

Leiknismenn voru ekki lengi að svara fyrir sig því á 55. mínútu skoraði Róbert Hauksson úr skalla eftir fyrirgjöf frá Degi Austmann Hilmarssyni, 1:2 og heimamenn mættir til leiks. 

Omar Sowe var heppinn að sleppa við rautt spjald á 58. mínútu þegar að hann gaf Brynjari Hlöðverssyni olnbogaskot, dómarinn virtist ekki sjá það og leikurinn hélt áfram. 

Kristófer Konráðsson átti svo glæsilegt skot fyrir utan teig rétt framhjá á lokamínútunni en inn vildi boltinn ekki. 

Fleiri urðu mörkin ekki og við stóð 1:2. 

Breiðablik heldur toppsætinu með 24 stig, Leiknir R. er enn í því neðsta með þrjú. 

Eftir landsleikjahlé fer Leiknir í Hafnarfjörðinn í næsta leik sínum og mætir þar FH. Breiðablik fer á Hlíðarenda og mætir Val. 

Leiknir R. 1:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Fimm mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka