Breiðablik vann sinn fjórða sigur á leiktíðinni í Bestu deild kvenna í fótbolta er liðið heimsótti nýliða Aftureldingar í Mosfellsbæinn í kvöld og fögnuðu 5:1-sigri. Breiðablik er nú með tólf stig en Afturelding er enn þá aðeins með þrjú.
Breiðablik byrjaði af krafti og sótti mikið fyrstu mínúturnar. Það skilaði sér með fyrsta marki leiksins á 8. mínútu en það gerði Taylor Ziemer með föstu skoti úr teignum eftir fallega sendingu frá Birtu Georgsdóttur.
Birta sá sjálf um að gera annað markið á 22. mínútu þegar hún kláraði af stuttu færi í teignum eftir sendingu frá Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttir. Breiðablik var með töluverða yfirburði allan hálfleikinn en þrátt fyrir það urðu mörkin ekki fleiri og var staðan í leikhléi 2:0.
Afturelding minnkaði muninn í 2:1 á 55. mínútu þegar Hildur Karítas Gunnarsdóttir skallaði í netið af stuttu færi eftir klaufagang hjá Heiðdísi Lillýjardóttur í vörn Breiðabliks. Aðeins tveimur mínútum síðar kom Natasha Anasi Breiðabliki hinsvegar aftur tveimur mörkum yfir með skalla úr teignum eftir aukaspyrnu frá Áslaugu.
Anna Petryk bætti við fjórða marki Breiðabliks á 68. mínútu með afgreiðslu af stuttu færi eftir sendingu frá Birtu Georgsdóttur. Áslaug Munda lagði síðan upp sitt þriðja mark á 72. mínútu þegar hún sendi hornspyrnu beint á kollinn á Alexöndru Jóhannsdóttur sem bætti við fimmta markinu.
Varamaðurinn Clara Sigurðardóttir skoraði sjötta markið tveimur mínútum fyrir leikslok þegar Birta nældi í sína þriðju stoðsendingu. Hún sendi þá fyrir markið á Clöru sem skoraði af stuttu færi og þar við sat.