Selfoss vann þægilegan sigur á KR á heimavelli í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld, 3:1.
Fyrri hálfleikurinn var einstaklega rólegur en Selfoss hafði góð tök á leiknum. Þær skoruðu tvívegis, með rúmlega tveggja mínútna millibili, og þar við sat í fyrri hálfleik. Mörkin voru einstaklega glæsileg, á 16. mínútu átti Barbára Sól Gísladóttir góða sendingu inn í teig þar sem Brenna Lovera tók boltann á kassann og lagði hann fyrir Miranda Nild sem þrumaði knettinum í netið af vítateigslínunni.
Örfáum andartökum síðar snerust hlutverkin við þegar Nild átti frábæra sendingu innfyrir á Lovera sem var ekkert að tvínóna við hlutina heldur hamraði boltann í þverslána og inn.
Liðin byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og KR náði að minnka muninn eftir rúmar fimm mínútur með þriðja glæsimarki leiksins. Margaux Chauvet sendi boltann þá þvert yfir völlinn inn í vítateig Selfoss þar sem Bergdís Fanney Einarsdóttir kom á ferðinni og hamraði boltann upp í þaknetið.
Markið náði ekki að blása frekara lífi í leik KR því Selfoss tók völdin aftur og á 57. mínútu gerði Barbára Sól Gísladóttir endanlega út um leikinn með skallamarki eftir hornspyrnu.
Eftir þetta fjaraði leikurinn út og síðustu þrjátíu mínúturnar voru tíðindalitlar. Þeir varamenn sem komu inná náðu ekki að lífga leikinn við og niðurstaðan varð öruggur sigur Selfoss sem lyftir sér upp í 2. sætið með sigrinum. KR-ingar sitja áfram á botninum.