Tek þetta alfarið á mig

Hörður Björgvin svekktur eftir jöfnunarmark Ísraela.
Hörður Björgvin svekktur eftir jöfnunarmark Ísraela. AFP/Jack Guez

Hörður Björgvin Magnússon lagði upp seinna mark Íslands í 2:2-jafnteflinu á útivelli gegn Ísrael í Þjóðadeild UEFA í fótbolta ytra í kvöld. Hörður átti þá glæsilega sendingu á Arnór Sigurðsson sem skoraði með föstu skoti í fjærhornið, snemma í seinni hálfleik.

Ísrael hafði komist í 1:0 en Ísland svarað með tveimur mörkum í lok fyrri hálfleiks og snemma í seinni hálfleik.

„Við fengum mark á okkur snemma og það ýtti okkur upp og við byrjum að spila. Þeir pressuðu mikið en þeir gátu það ekki í 90 mínútur og þá fengum við tækifæri til að spila aðeins boltanum og við náum á endanum marki á þá rétt fyrir hálfleik,“ sagði Hörður Björgvin í samtali við Viaplay eftir leik.

Ísrael jafnaði skömmu fyrir leikslok og Hörður var ekki sáttur við sjálfan sig í því marki. „Þetta voru mistök hjá mér. Mér fannst eins og ég hafi verið með manninn minn. Ég tek þetta alfarið á mig og ég set þetta í reynslubankann. Það er svekkjandi að tapa þessu niður.”

Íslenska liðið var ungt og óreynt og Hákon Arnar Haraldsson spilaði til að mynda sinn fyrsta landsleik.

Við sýndum karakter og ég hrósa öllum þessum ungu strákum sem voru að spila. Þetta er ungt og óreynt lið en það sást ekki. Þetta voru erfiðar aðstæður en við gerðum vel í mörgu,” sagði Hörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert