Ég lifi fyrir svona bikarleiki

Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks.
Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég lifi fyrir bikarleiki, sem eru lang skemmtillegastir og ég er mjög sátt við að vera komin áfram,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Blikakvenna eftir 3:1 sigur á Þrótti þegar liðin mættust í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar í Kópavogi í kvöld.  „Mér finnst deildin er alltaf bara deildin og bikar alltaf bikar, við viljum auðvitað vera inn í báðum keppnum á fullu en bikarkeppni er uppáhaldið mitt.“

Fyrstu mínútur leiksins var ákefð í Þrótturum en reynslumikið lið Blika stóð það af sér.  „Mér fannst við vissulega byrja hálfsofandi og vorum ekki ánægðar með það en mér fannst við vinna okkur inní leikinn og höfðum undirtökin nánast allan leikinn en það var gott að fá þriðja markið í lokin til að sigla þessu heim.   Mér fannst þær ekki fá nein dauðafæri.  Það var smá bil á milli lína hjá okkur og við náðum ekki að vinna með pressuna eins og við gerðum í fyrri hálfleik en það var samt vel gert hjá okkur að halda þeim nokkuð langt frá markinu okkar,“ bætti fyrirliðinn við. 

Það þriðja drap leikinn

Hildur Antonsdóttir var á skotskónum sínum og skoraði tvö mörk fyrir Blika auk þess að halda vörn Þróttar rækileg við efnið.  „Við byrjuðum ekki nógu vel og Þróttur kom sterkari inn í leikinn en svo setjum við í næsta gír og komum með þessi tvö mörk, sem hjálpuðu til að taka yfir leikinn en í seinni hálfleik byrjuðu Þróttarar aftur sterkari og tóku yfir leikinn fyrsta hálftímann en við náum svo að setja inn þriðja markið sem drepur leikinn,“ sagði Hildur eftir leikinn.

Blikakonur eru í 4. sæti efstu deildar og ríkjandi bikarmeistarar.  Var þá pressa á þeim? „Maður fer í alla bikarleiki til að vinna, það er allt eða ekkert svo það gengur ekkert að vera sækja einhver stig eða eitthvað,  heldur verður að gefa allt í leikinn og annað hvort liðið fer svo áfram.  Við höfum skoðað hvernig Þróttur hefur spilað síðustu leiki sína en við venjulega hugsum bara um okkar leik, okkar helsta er að vinna fyrsta og annan bolta ásamt stemmingu í liðinu.  Ef það er í lagi eigum við að geta unnið hvaða lið sem er,“ bætti Hildur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka