Tvö frá Hildi þegar Blikakonur lögðu Þrótt

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir kom Breiðabliki á bragðið í kvöld.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir kom Breiðabliki á bragðið í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Blikakonur réðu lögum og lofum þegar Þróttur kom í heimsókn í Kópavoginn þegar leikið var í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar, Mjólkurbikarnum í kvöld.   Einbeittur sóknarleikur Blika kom í veg fyrir að Þróttur fyndi fjölina lengi vel og varð að sætta stig við 3:1 tap.  

Fyrstu mínúturnar fóru í að prófa völlinn og lítið um færi en síðan tóku Blikakonur við sér, sóknir þeirra þyngdust stöðugt um leið og Þróttur varð að hörfa í vörnina.   Eftir korter brast svo ísinn þegar brotið var á Karen Maríu Sigurgeirsdóttur í teignum, víti dæmt, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir steig fram á punktinn og skaut af miklu öryggi upp í vinstra hornið algerlega óverjandi.    Tíu mínútum síðar var þung sókn Blika og Ásta Eir Árnadóttir átti góða sendingu inn í miðjan vítateig Þróttar þar sem Hildur Antonsdóttir stóð örugg og skallaði yfir Írísi Dögg Gunnarsdóttur í markinu, staðan 2:0.  Á 28. mínútu kom besta færi Þróttar þegar Telma Ívarsdóttir í marki Blika varði þrumuskot Kötlu Tryggvadóttir af 25 metra færi.   Blikakonur voru samt ekki hættar og á 35. mínútu small þrumuskot Alexöndru Jóhannsdóttir í slá Þróttara. 

Í upphafi síðari hálfleiks fékk Þróttur góða sókn sem lauk með því að Alexandra Jóhannsdóttir braut á Maríu Evu Eyjólfsdóttur inni í vítateig Blika, brot sem virtist ekki mikið en samt dæmt víti þar sem Katla Tryggvadóttir minnkaði muninn í 2:1 með þrumuskoti í vinstra hornið niðri.  Markið hleypti lífi í leik Þróttar og sótt var meira en sjálfar voru Blikakonur duglegar að byggja upp sóknir en það örlaði á að þær vildu halda fengnum hlut – eins og gerist á bestu bæjum.  Lengi vel var beðið eftir marki öðru hvoru megin á vellinum.   Síðasti hálftími leiksins var því fjörugur en stressið var líka mikið svo það varð ekki mikið um dauðafæri, oft nálægt því og það vantaði ekkert uppá viljann til að vinna.  Á 85. mínútu kom svo rothöggið þegar Hildur Antonsdóttir markadrottning Blika komst af harðfylgi í gegnum vörn Þróttar og skoraði úr þröngri stöðu.  Staðan 3:1 og 5 mínútur eftir.

Breiðablik er því komið í undanúrslit bikarkeppninnar með Stjörnunni sem vann 1:4 í Eyjum, Selfoss sem vann Þór/KA 4:1 á Selfossi og Valur sem hafði 3:0 betur gegn KR að Hlíðarenda.

Breiðablik 3:1 Þróttur R. opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka