Jón Dagur Þorsteinsson skoraði fyrra mark Íslands í 2:2-jafntefli gegn Ísrael í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld. Ísland komst í tvígang yfir í leiknum en varð að lokum að sætta sig við eitt stig.
„Þetta er pirrandi. Mér fannst við flottir, ef við horfum yfir allan leikinn. Þetta er herslumunurinn; sjálfsmark og VAR. Þetta var ekki að detta með okkur á mikilvægum augnablikum en við eigum að klára leikinn í fyrri hálfleik.
Við erum mjög svekktir. Þetta var langt verkefni og við vildum enda þetta með sigri. Það er fullt af jákvæðum hlutum sem við tökum með okkur í næsta verkefni,“ sagði Jón Dagur við mbl.is eftir leik. En hvað er það sem íslenska liðið tekur með sér í næstu verkefni?
„Við erum að skora mörk, við erum að spila fínt og halda skipulagi lengi og gera það vel. Pressan er að verða betri hjá okkur og við erum að vinna boltann framar á vellinum. Svo eru þetta lítil augnablik sem við þurfum að skora og fá til að falla með okkur,“ sagði hann.
Sóknarmaðurinn hefur nú skorað fjögur mörk í 21 landsleik, þar af tvö mörk í þremur keppnisleikjum á þessu ári. Hann er því byrjaður að skora meira með landsliðinu eftir aðeins eitt mark í fyrstu 15 leikjunum.
„Það er enginn rosalegur munur. Þetta snýst um að mæta í ákveðin svæði. Það hafði vantað aðeins í minn leik og er nú að skila sér. Ég hljóp mikið í dag en ég náði ekki alveg takti við leikinn eins og ég vonaðist til. Ég skoraði og allt það en ég hefði viljað gera meira.“
Ísland hefur gert jafntefli í öllum þremur leikjum sínum til þessa í Þjóðadeildinni og er því með þrjú stig eftir þrjá leiki. Jón Dagur er bjartsýnn, þrátt fyrir mikla gagnrýni utanfrá.
„Auðvitað er pirrandi að ná ekki einum sigri. Það vantaði ekki mikið upp á hjá okkur. Við þurfum að fá litlu atriðin með okkur í þessu. Það veit enginn hvort boltinn var inni eða ekki í dag og svoleiðis hlutir mega fara að detta með okkur. Við getum verið jákvæðir. Þetta eru fyrstu þrír leikirnir hjá okkur þar sem er komin rétt mynd á liðið eftir allar breytingarnar. Við horfum fram á veginn, erum jákvæðir og hlustum ekki á þessa trúða út í bæ,“ sagði hann.
Jón Dagur mun skipta um félag í sumar eftir þrjú tímabil með AGF í Danmörku. Hann er þó ekki á leiðinni til Lyngby, þrátt fyrir að Freyr Alexandersson, þjálfari danska liðsins, hafi lýst yfir áhuga á Jóni Degi á Twitter í kvöld.
„Ég er kominn með nóg af Danmörku. Ég væri til í að vinna með Frey en þetta er ekki rétta augnablikið. Ég er opinn fyrir öllu og bíð spenntur. Þetta er búið að vera langt verkefni og við erum búnir að vera á hótelum í 2-3 vikur. Það er alltaf gaman að vera með strákunum en ég held það séu allir sáttir við að fá smá frí,“ sagði Jón Dagur.