Breiðablik upp í annað sætið

Þróttur og Breiðablik eigast við.
Þróttur og Breiðablik eigast við. mbl.is/Hákon Pálsson

Breiðablik vann góðan 3:0 sigur á liði Þróttar í Bestu deild kvenna í Laugardalnum í kvöld. Það var Hildur Antonsdóttir sem skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik í leiknum en Alexandra Jóhannsdóttir skoraði þriðja og síðasta mark leiksins.

Þessi sigur þýðir að Breiðablik er komið í annað sæti deildarinnar með 18 stig en Valur er á toppnum með 22 stig. Þróttur er aftur á móti í fimmta sæti deildirnar með 16 stig.

Það voru gestirnir sem byrjuðu betur í Laugardalnum í kvöld en strax á 2. mínútu leiksins átti Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir skot að marki Þróttar en Íris Dögg Gunnarsdóttir varði skotið vel. Aðeins tveimur mínútum síðar átti Birta Georgsdóttir góðan sprett upp hægri kantinn og náði góðri sendingu fyrir en Hildur Antonsdóttir náði ekki til boltans.

Eftir rólega byrjun sóknarlega náðu leikmenn Þróttar góðri sókn á 12. mínútu leiksins en sú sókn endaði á góðri sendingu frá Andreu Rut Bjarnadóttir inn á teiginn þar sem Freyja Karín Þorvarðardóttir var í góðri stöðu en Telma Ívarsdóttir kom vel út á móti og náði boltanum.

Á 26. mínútu leiksins átti Anna Petryk ansi gott skot að marki Þróttar eftir að hafa varið illa með einn varnarmann Þróttar en skot hennar fór rétt framhjá. En aðeins einni mínútu síðar átti Clara Sigurðardóttir frábæra sendingu inn fyrir vörn Þróttar og þar var það Hildur Antonsdóttir sem náði góðu skoti framhjá Írisi Dögg sem hafði komið út á móti henni og boltinn söng í netinu. Eftir þetta fengu bæði lið færi til að skora en Breiðablik var þó nærri því að bæta við marki en leikmenn Þróttar að jafna metin.

Seinni hálfleikur byrjaði með látum en þó ekki á vellinum því á 49. mínútu leiksins fékk Nik Anthony Chamberlain rautt spjald frá Jóhanni Inga Jónssyni en hann virðist hafa sagt eitthvað að Breka Sigurðsson, aðstoðardómara.

Stuttu síðar fékk Anna Petryk gott færi eftir góða sendingu frá Ástu Eir Árnadóttur en skot hennar fór yfir. Á 67. mínútu fékk Þróttur frábært tækifæri til að jafna metin en þá átti Murphy Agnew góða sendingu inn fyrir vörn Breiðabliks og Freyja Karín var komin ein í gegn á móti Telmu Ívarsdóttur en Telma kom vel út á móti henni og varði vel.

Á 68. mínútu leiksins átti Ásta Eir góða sendingu fyrir og þar var það Karítas Tónmasdóttir sem stökk hæst og náði góðum skalla á markið en Íris Dögg varði virkilega vel frá Karítas. Á 85. mínútu leiksins átti Ásta Eir góða sendingu á Helenu Ósk sem náði að koma boltanum á Hildi Antonsdóttur sem tók á sprettinn og var kominn ein í gegn og setti boltann örugglega í netið. Svo var það á 89. mínútu leiksins að Ásta Eir átti sendingu fyrir mark Þróttar og þar var það Alexandra Jóhannesdóttir sem setti boltann í netið og gulltryggði sigur Breiðabliks.

Besta deild kvenna er núna hálfnuð en öll lið hafa spilað níu leiki. Síðasta umferðin fyrir EM kvenna á Englandi er um næstu helgi en þá mætir Þróttur liði Vals í Laugardalnum á sunnudaginn en Breiðablik spilar gegn Þór/KA á laugardaginn á Akureyri. Síðan tekur við tæplega sjö vikna hlé vegna þátttöku Íslands á EM kvenna í knattspyrnu.

Þróttur R. 0:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Hildur Antonsdóttir (Breiðablik) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert