Þægilegt hjá Blikum fyrir norðan

Leikmenn Breiðabliks fagna fyrsta marki leiksins.
Leikmenn Breiðabliks fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Tíunda umferðin í Bestu deild kvenna í fótbolta hófst í dag með leik Þórs/KA og Breiðabliks á SaltPay vellinum í Þorpinu á Akureyri. Leikið var í fínu veðri en völlurinn var mjög blautur og þungur eftir rigningar síðasta sólarhringinn. Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik tóku Blikakonur öll völd og unnu þær 4:0. 

Blikakonur voru örlítið sterkari í fyrri hálfleiknum. Þær náðu inn marki strax á 9. mínútu og fengu tvö fín færi í viðbót. Clara Sigurðardóttir skoraði af stuttu færi eftir undirbúning frá Birtu Georgsdóttur og sendingu frá Hildi Antonsdóttur frá endamörkunum. Varnarlína Þórs/KA var gjörbreytt frá síðasta leik og aðeins einn leikmaður þar sem var með síðast. Hulda Björg Hannesdóttir var komin á sinn stað í vörninni og síðan voru nýir bakverðir báðum megin.  

Sóknir Þórs/KA byggðust fyrst og fremst á löngum sendingum fram völlinn en þar sem hann var blautari en oftast þá fóru sendingarnar flestar aftur fyrir endamörk. Þór/KA skapaði engin afgerandi færi í fyrri hálfleiknum en liðið fékk fimm hornspyrnur og athygli vakti að Andrea Mist Pálsdóttir tók þær allar, jafnt með vinstri eða hægri fæti. 

Breiðablik byrjaði seinni hálfleikinn mjög kröftuglega og skoraði tvö mörk á fyrsta kortéri hans. Var Karitas Tómasdóttir að verki í bæði skiptin. Fyrst komst hún ein gegn Hörpu og afgreiddi boltann út við stöng. Seinna markið kom eftir klessuhorn þar sem leikmenn fylltu markteiginn og Natasha Anasi náði skalla sem fór í varnarmann. Karitas var þá á réttum stað og setti boltann í markið. Staðan var þá orðin 3:0 og Blikar með öll tök á leiknum. 

Fátt markvert gerðist eftir þetta og sigldi Breiðablik sigrinum í höfn án vandkvæða. Blikar reyndar bættu við öðru marki eftir hornspyrnu og í þetta skiptið var það Natasha sem náði að skalla boltann í netið. 4:0 sigur varð niðurstaðan og Blikar á hæla Vals í bili. 

Þór/KA 0:4 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið Öruggur sigur hjá Blikum í dag. Heimakonur voru fínar í fyrri hálfleiknum en sáu varla til sólar í þeim seinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka