Ísak Snær Þorvaldsson fór mikinn fyrir Breiðablik þegar liðið vann öruggan sigur gegn KA í efstu deild karla í knattspyrnu, Bestu deildinni, á Kópavogsvelli í Kópavogi í 10. umferð deildarinnar í kvöld.
Ísak Snær kom Breiðabliki yfir um miðjan fyrri hálfleikinn en Blikar létu boltann ganga hratt frá aftasta manni og boltinn barst að endingu til Dags Dans Þórhallssonar á miðsvæðinu.
Hann átti frábæra sendingu upp hægri vænginn á Höskuld Gunnlaugsson og hann átti ekki síðri sendingu fyrir markið á Ísak Snæ.
Ísak átti viðstöðulaust skot af vítateigslínunni, boltinn söng í bláhorninu og staðan orðin 1:0 fyrir Breiðablik.
Blikar voru sterkari aðilinn það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en tókst ekki að koma boltanum í netið og staðan því 1:0 í hálfleik, Breiðabliki í vil.
Akureyringar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og fengu nokkur föst leikatriði sem þeim tókst ekki að nýta sem skildi.
Jason Daði Svanþórsson tvöfaldaði svo forystu Breiðabliks á 65. mínútu með laglegu marki en Viktor Karl Einarsson átti þá sendingu á Ísak Snæ sem tók á rás frá miðlínunni.
Ísak dró í sig þrjá varnarmenn KA áður en hann lagði boltann til hliðar á Jason sem var kominn einn í gegn og hann lagði boltann snyrtilega framhjá Steinþóri Má Auðunssyni í marki KA.
Viktor Karl Einarsson bætti við þriðja marki Blika fimm mínútum síðar og aftur var það Ísak Snær sem var arkitektinn.
Ísak snéri Dusan Brkovic af sér eins og smákrakka og keyrði í átt að vítateig KA-manna. Hann dró alla varnarmenn Akureyringa í sig áður en hann lagði boltann út til hægri á Viktor Karl sem var einn gegn Steinþóri Má.
Viktor Karl þrumaði boltanum laglega undir markvörð Akureyringa og staðan orðin 3:0, Breiðablik í vil.
Jason Daði var svo aftur á ferðinni á 81. mínútu þegar Blikar unnu boltann ofarlega á vallarhelmingi KA.
Davíð Ingvarsson átti þá laglega sendingu á nærstöngina þar sem Jason Daði var mættur og hann tæklaði boltann snyrtilega í netið.
Elfar Árni Aðalsteinsson minnkaði muninn fyrir KA á 89. mínútu þegar boltinn barst til hans eftir hornspyrnu frá hægri.
Elfar Árni átti fast skot á nærstöngina sem Anton Ari Einarsson réð ekki við og lokatölur á Kóapvogsvelli því 4:1.
Breiðablik er með 27 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur 8 stiga forskot á Stjörnuna sem er í öðru sætinu en KA er með 17 stig í fjórða sætinu.