Leiknir vann sinn fyrsta sigur í Bestu deild karla í knattspyrnu á tímabilinu og þann fyrsta í tæpt ár þegar liðið fékk ÍA í heimsókn í Breiðholtið í kvöld. Lauk leiknum með 1:0-sigri Leiknismanna.
Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega þar sem bæði lið fengu prýðis færi til þess að ná forystunni en tókst ekki.
Um miðjan fyrri hálfleikinn fóru leikar að róast umtalsvert og gerðist fátt markvert þar til undir lok hans þegar Skagamenn fengu tvö góð skotfæri.
Fyrst gerði Benedikt Warén sig líklegan eftir laglegan sprett en skot hans rétt fyrir utan vítateig fór naumlega framhjá.
Skömmu síðar náði Eyþór Aron Wöhler skoti utarlega úr vítateignum en Viktor Freyr Sigurðsson varði það.
Undir blálok hálfleiksins átti Emil Berger svo hættulega tilraun fyrir Leikni við vítateigslínuna í kjölfar hornspyrnu en laglegt vinstrifótar skot hans á lofti fór naumlega framhjá nærstönginni.
Markalaust var því í leikhléi.
Í upphafi síðari hálfleiks áttu bæði lið nokkrar ágætis skottilraunir fyrir utan vítateig en engin opin færi.
Á 64. mínútu gerði Leiknir tvöfalda breytingu og aðeins mínútu seinna átti annar þeirra, Róbert Hauksson, þátt í sigurmarkinu.
Reyndi hann sendingu á Mikkel Dahl sem náði að pota í boltann, í Wout Droste þaðan sem boltinn rúllaði til Mikkel Jakobsen sem þakkaði fyrir sig og renndi boltanum niður í nærhornið af stuttu færi.
Í kjölfar marksins gengu Leiknismenn á lagið og gerðu sig trekk í trekk líklega til þess að tvöfalda forystuna.
Róbert fékk frábært færi á 72. mínútu þegar Jakobsen fann hann í vítateignum, Róbert klöngraðist einhvern veginn í gegnum varnarmann ÍA og þrumaði að marki af stuttu færi en Árni Snær Ólafsson varði vel.
Enn betra færi fékk Dahl á 79. mínútu þegar hann slapp einn í gegn eftir sendingu Maciej Makuszewski en renndi boltanum naumlega framhjá markinu.
Á fjórðu mínútu uppbótartíma fékk Kaj Leo í Bartalsstovu beint rautt spjald fyrir að hrinda Birgi Baldvinssyni í auglýsingaskiltið. Makuszewski kom aðvífandi og ýtti Kaj Leo. Fékk hann sömuleiðis beint rautt spjald.
Skagamenn náðu annars ekki að skapa sér neitt það sem eftir lifði leiks og sigldu Leiknismenn því afskaplega kærkomnum sigri í höfn, þeim fyrsta í deildinni í um 11 mánuði.
Leiknir fer með sigrinum upp fyrir ÍBV í 11. sæti og er nú með 7 stig, aðeins einu stigi á eftir ÍA sem er með 8 stig í 10. sæti.