Tíu Víkingar stóðu frábærlega í sænsku meisturunum

Viktor Örlygur Andrason í viðureign Víkings og Inter d'Escaldes í …
Viktor Örlygur Andrason í viðureign Víkings og Inter d'Escaldes í úrslitaleik forkeppninnar. mbl.is/Hákon

Íslands­meist­ar­ar Vík­ings úr Reykja­vík máttu sætta sig við naumt 2:3-tap gegn Svíþjóðar­meist­ur­um Mal­mö í fyrri leik liðanna í 1. um­ferð undan­keppni Meist­ara­deild­ar Evr­ópu í dag, og það þrátt fyr­ir að leika ein­um manni færri í um 55 mín­út­ur eft­ir að Krist­all Máni Inga­son fékk furðulegt rautt spjald í fyrri hálfleik eft­ir að hann hafði skorað.

Fyrri hálfleik­ur­inn var afar líf­leg­ur. Ola Toi­von­en fékk sann­kallað dauðafæri strax á þriðju mín­útu þegar hann skallaði lag­lega fyr­ir­gjöf Jo Inge Ber­get naum­lega fram­hjá.

Vík­ing­ar tóku þá vel við sér og voru alls óhrædd­ir við að halda bolt­an­um.

Karl Friðleif­ur Gunn­ars­son kom sér í góða skot­stöðu á tí­undu mín­útu eft­ir send­ingu Pablo Punyed og náði hættu­legu vinstri fót­ar skoti en Denn­is Hadziku­danic gerði vel í að kom­ast fyr­ir það.

Á 16. mín­útu náði Mal­mö for­yst­unni. Velj­ko Bir­mancevic renndi bolt­an­um út á And­ers Christian­sen sem hitti bolt­ann eng­an veg­inn, hann barst til Mart­in Ols­son sem skaut að marki og fór bolt­inn af Júlí­usi Magnús­syni, breytti þannig um stefnu og hafnaði nær­horn­inu.

Fimm mín­út­um síðar sparkaði Niklas Mois­and­er í höfuðið á Hall­dóri Smára inn­an víta­teigs, sem vann skalla­bolt­ann eft­ir horn­spyrnu, en fengu Vík­ing­ar þó ekki dæmda víta­spyrnu. Miðað við það sem kom á eft­ir var það ekki mjög óvænt ákvörðun hjá dóm­ar­an­um.

Mal­mö átti í mikl­um erfiðleik­um með Kristal Mána sem fór illa með varn­ar­menn sænsku meist­ar­anna í sí­fellu. Var enda brotið á hon­um um það bil tíu sinn­um í fyrri hálfleikn­um og engu lík­ara en að lagt væri upp með að sparka hann niður.

Auk þess fékk Krist­all Máni gult spjald fyr­ir leik­ara­skap þegar hann var að forða sér upp úr hættu­legri sóla­tæk­lingu Sergio Pena.

Nokkuð jafn­ræði var með liðunum í fram­hald­inu og jafnaði Krist­all Máni met­in á 38. mín­útu.

Hann fékk þá stór­kost­lega send­ingu inn fyr­ir frá Pablo, tók vel við bolt­an­um og smeygði hon­um svo lymsku­lega fram­hjá Joh­an Dahlin í marki Mal­mö, 1:1.

Krist­all Máni fagnaði marki sínu, hans þriðja í þriðja Evr­ópu­leik sín­um á ferl­in­um, með því að sussa á stuðnings­menn Mal­mö.

Fyr­ir það upp­skar hann á ein­hvern illskilj­an­leg­an hátt annað gult spjald frá af­leit­um dóm­ara leiks­ins, Dumitri Mun­te­an frá Moldóvu, og Vík­ing­ar því ein­um færri það sem eft­ir lifði leiks.

Auk þess verður Krist­all Máni í leik­banni í síðari leik liðanna á Vík­ings­velli í næstu viku.

Á 42. mín­útu náði Mal­mö for­yst­unni á ný. Ber­get átti þá frá­bæra fyr­ir­gjöf á Toi­von­en, sem smeygði sér fram fyr­ir Hall­dór Smára og skallaði bolt­ann lag­lega í blá­hornið.

Toi­von­en fagnaði með því að öskra á stuðnings­menn Vík­ings en Mun­te­an sá þó ekki ástæðu til þess að gefa hon­um gult spjald fyr­ir. At­hygl­is­vert það.

Staðan því 2:1 í leik­hléi, Mal­mö í vil.

Í síðari hálfleik færðu tíu Vík­ing­ar sig aft­ar á völl­inn og vörðust vel.

Flest­ar til­raun­ir Málmey­inga voru skot fyr­ir utan teig en hættu­leg­ast þeirra átti Pena þegar síðari hálfleik­ur var rétt rúm­lega hálfnaður.

Fékk Perú­bú­inn þá bolt­ann hægra meg­in við víta­teig­inn eft­ir horn­spyrnu, skrúfaði bolt­ann lag­lega í fjær­hornið en hafnaði bolt­inn í stöng­inni. And­ers Christian­sen fylgdi á eft­ir af stuttu færi en Vikt­or Örlyg­ur Andra­son komst í veg fyr­ir skotið.

Á 83. mín­útu náði Mal­mö loks að opna vörn Vík­inga al­menni­lega og upp­skar þriðja mark sitt.

Hall­dór Smári hreinsaði þá bolt­an­um of stutt frá, bolt­inn fór beint í fæt­ur vara­manns­ins Hugo Lars­son, hann renndi bolt­an­um til hliðar á Velj­ko Bir­mancevic sem skoraði með hnit­miðuðu þrumu­skoti niður í blá­hornið fjær.

Á ann­arri mín­útu upp­bót­ar­tíma átti Hadziku­danic hörkuskalla eft­ir horn­spyrnu Bir­mancevic sem hafnaði í ut­an­verðri stöng­inni.

Ein­um færri voru Vík­ing­ar hins veg­ar ekk­ert á því að gef­ast upp. Varamaður­inn Helgi Guðjóns­son minnkaði mun­inn á þriðju mín­útu upp­bót­ar­tíma.

Þá komst hann inn í lé­lega þversend­ingu vara­manns­ins Jon­as Knudsen, lék með bolt­ann í átt að víta­teig, tók þar skot sem fór af varn­ar­manni Mal­mö og sigldi þaðan niður í blá­hornið fjær.

Mal­mö fékk í kjöl­farið tvö dauðafæri er varamaður­inn Sebastian Nanasi skaut fram­hjá af ör­stuttu færi og Ber­get skallaði fram­hjá úr opnu skalla­færi í kjöl­far horn­spyrnu sem var rang­lega dæmd í kjöl­far skots Nanasi.

Að því loknu flautaði Mun­te­an til leiks­loka og 2:3-tap niðurstaðan, sem verður að telj­ast virki­lega góð úr­slit fyr­ir Vík­inga á erfiðum úti­velli með dóm­ara á flaut­unni sem var ein­fald­lega ekki starfi sínu vax­inn.

Hug­rekki í síðari hálfleik

Vík­ing­ar sýndu mikið hug­rekki í leik sín­um ein­um færri og vörðust frá­bær­lega all­an fyrri hálfleik­inn.

Bir­mancevic, sem var manna líf­leg­ast­ur í liði Mal­mö, nýtti eina opna færi liðsins í síðari hálfleikn­um vel og lítið við því að gera þó Hall­dór Smári hafi getað hreinsað lengra frá í aðdrag­and­an­um.

Full­ur sjálfs­trausts og óþreytt­ur var Helgi, sem vann skalla­bolt­ann áður en Knudsen átti feil­send­ing­una sem hann komst svo inn í, áfjáður í að pressa und­ir lok­in og upp­skar gott mark sem gæti reynst Vík­ing­um gulls ígildi.

Mal­mö 3:2 Vík­ing­ur R. opna loka
skorar Martin Olsson (16. mín.)
skorar Ola Toivonen (42. mín.)
skorar Veljko Birmancevic (83. mín.)
Mörk
skorar Kristall Máni Ingason (38. mín.)
skorar Helgi Guðjónsson (90. mín.)
fær gult spjald Anders Christiansen (12. mín.)
fær gult spjald Veljko Birmancevic (41. mín.)
fær gult spjald Erdal Rakip (66. mín.)
Spjöld
fær gult spjald Oliver Ekroth (23. mín.)
fær gult spjald Kristall Máni Ingason (28. mín.)
fær gult spjald Viktor Örlygur Andrason (31. mín.)
fær gult spjald Pablo Punyed (34. mín.)
fær rautt spjald Kristall Máni Ingason (39. mín.)
fær gult spjald Þórður Ingason (83. mín.)
mín.
90 Leik lokið
+6 Frábær frammistaða Víkings sem voru einum færri í um 55 mínútu en ná að halda sér vel inni í einvíginu!
90 Jo Inge Berget (Malmö) á skalla sem fer framhjá
+5 Dauðafæri! Hornspyrnan tekin stutt, fyrirgjöf sem endar með fríum skalla Berget en hann fer framhjá!
90 Malmö fær hornspyrnu
+5
90 Sebastian Nanasi (Malmö) á skot framhjá
+5 Dauðafæri! Skýtur framhjá en hornspyrna dæmd af einhverjum ástæðum!
90 MARK! Helgi Guðjónsson (Víkingur R.) skorar
+3 Víkingur minnkar muninn! Helgi kemst inn í slaka sendingu Knudsen, leikur með boltann nálægt teignum, tekur skotið rétt utan hans og boltinn af varnarmanni og siglir þaðan niður í bláhornið fjær!
90 Dennis Hadzikadunic (Malmö) á skalla í stöng
+2 Birmancevic með hornspyrnuna, hörkuskalli hjá Hadzikadunic sem hafnar í stönginni!
90 Malmö fær hornspyrnu
+2
90 Veljko Birmancevic (Malmö) á skot sem er varið
+1 Skotið fyrir utan teig beint í fang Þórðar.
90
Nærri því sjálfsmark! Sending Berget af Ekroth og rúllar rétt fyrir framan marklínuna áður en Davíð Örn hreinsar frá.
89 Sebastian Nanasi (Malmö) á skot sem er varið
Skotið fyrir utan teig beint í fangið á Þórði.
83 MARK! Veljko Birmancevic (Malmö) skorar
3:1 Malmö skorar þriðja markið. Halldór Smári potar boltanum frá en beint í fætur Hugo Larsson, hann rennir boltanum til hliðar á Birmancevic sem þrumar boltanum laglega niður í bláhornið vinstra megin úr teignum.
83 Þórður Ingason (Víkingur R.) fær gult spjald
Fyrir að tefja.
81 Hugo Larsson (Malmö) á skot sem er varið
Kominn í gott skotfæri en Ekroth gerir frábærlega í að komast í veg fyrir það.
80 Hugo Larsson (Malmö) kemur inn á
80 Erdal Rakip (Malmö) fer af velli
80 Helgi Guðjónsson (Víkingur R.) kemur inn á
80 Nikolaj Hansen (Víkingur R.) fer af velli
79 Sergio Pena (Malmö) á skot framhjá
Þrumuskot fyrir utan teig sem fer naumlega yfir markið. Þórður virtist þó alveg með þennan.
78 Ari Sigurpálsson (Víkingur R.) kemur inn á
78 Erlingur Agnarsson (Víkingur R.) fer af velli
77 Veljko Birmancevic (Malmö) á skot sem er varið
Skotið úr teignum eftir laglegt spil fer í varnarmann.
76 Sergio Pena (Malmö) á skot sem er varið
Skotið fyrir utan teig fer í varnarmann.
74 Malmö fær hornspyrnu
Hún er skölluð frá.
74 Jo Inge Berget (Malmö) á skot sem er varið
Í varnarmann.
71 Samuel Adrian (Malmö) kemur inn á
71 Ola Toivonen (Malmö) fer af velli
71 Jonas Knudsen (Malmö) kemur inn á
71 Martin Olsson (Malmö) fer af velli
71 Sebastian Nanasi (Malmö) kemur inn á
71 Anders Christiansen (Malmö) fer af velli
70 Malmö fær hornspyrnu
Hún er skölluð frá.
70 Malmö fær hornspyrnu
Víkingar hreinsa að lokum aftur fyrir á ný.
69 Anders Christiansen (Malmö) á skot sem er varið
Christiansen nær frákastinu en það fer í varnarmann.
69 Sergio Pena (Malmö) á skot í stöng
Frábært skot sem fer í stöngina!
69 Malmö fær hornspyrnu
69 Sergio Pena (Malmö) á skot sem er varið
Skotið fyrir utan teig fer í varnarmann og yfir markið.
68 Veljko Birmancevic (Malmö) á skalla sem er varinn
Nær engum krafti í skallann og Þórður grípur boltann.
66 Erdal Rakip (Malmö) fær gult spjald
Hangir í Hansen.
65 Jo Inge Berget (Malmö) á skot sem er varið
Davíð Örn kemst í veg fyrir skotið úr teignum.
60 Víkingur R. fær hornspyrnu
Hún er skölluð frá.
59 Ola Toivonen (Malmö) á skalla sem fer framhjá
Skallinn úr miðjum teignum fer nokkuð vel framhjá.
58 Veljko Birmancevic (Malmö) á skot sem er varið
Gerir vel í að koma sér í skotfæri í teignum en Viktor Örlygur kemst fyrir skotið.
57 Davíð Örn Atlason (Víkingur R.) kemur inn á
57 Logi Tómasson (Víkingur R.) fer af velli
56 Felix Beijmo (Malmö) kemur inn á
56 Niklas Moisander (Malmö) fer af velli
55 Malmö fær hornspyrnu
Víkingar koma boltanum frá.
55 Ola Toivonen (Malmö) á skot sem er varið
Nær föstu skoti utarlega úr teignum en Þórður ver vel aftur fyrir.
54 Erdal Rakip (Malmö) á skot sem er varið
Hörkuskot úr D-boganum sem stefnir niður í nærhornið en Þórður ver laglega. Christiansen er svo dæmdur rangstæður.
51
Víkingar eru búnir að skipta í 5-3-1 leikkerfið þar sem Viktor Örlygur er einn þriggja miðvarða, Erlingur er fremstur á miðjunni og Hansen einn frammi.
47 Martin Olsson (Malmö) á skot framhjá
Hornspyrnan er skölluð frá, Olsson reynir skot en það er langt yfir markið.
46 Malmö fær hornspyrnu
46 Seinni hálfleikur hafinn
Malmö hefur síðari hálfleikinn.
45 Hálfleikur
+2 Flottur fyrri hálfleikur hjá Víkingum en Malmö leiðir með einu marki og er einum fleiri eftir ótrúlegt rautt spjald sem Kristall Máni fékk.
43
Mér sýndist Toivonen öskra eitthvað í átt að stuðningsmönnum Víkings eftir að hann skoraði, ekki fékk hann gult spjald þó.
42 MARK! Ola Toivonen (Malmö) skorar
2:1 Malmö nær forystunni á ný. Berget með laglega fyrirgjöf á Toivonen sem smeygir sér fram fyrir Halldór Smára og skallar boltann hnitmiðað í bláhornið fjær.
41 Veljko Birmancevic (Malmö) fær gult spjald
Sparkar boltanum í burtu eftir að hann var dæmdur rangstæður.
39 Kristall Máni Ingason (Víkingur R.) fær rautt spjald
Rautt spjald! Kristall Máni fagnar með því að sussa á stuðningsmenn Malmö og fær annað gult spjald! Ekki er mér kunnugt um að það sé bannað, ja hérna.
38 MARK! Kristall Máni Ingason (Víkingur R.) skorar
1:1 Víkingur jafnar metin! Víkingur heldur boltanum vel um stund, Pablo á svo hreint stórkostlega sendingu inn fyrir á Kristal Mána sem tekur vel við boltanum og smeygir honum lúmskt framhjá Dahlin niður í hornið!
35 Malmö fær hornspyrnu
Tekin stutt og rennur rakleitt út í sandinn.
35 Erdal Rakip (Malmö) á skot sem er varið
Lagleg sending frá Toivonen í gott hlaup Rakip, sem reynir skot á nærstöngina en Ekroth bjargar í horn.
34 Pablo Punyed (Víkingur R.) fær gult spjald
Hindrar Rakip þegar boltinn er hvergi nærri.
31 Viktor Örlygur Andrason (Víkingur R.) fær gult spjald
Togar Birmancevic niður.
28 Kristall Máni Ingason (Víkingur R.) fær gult spjald
Fyrir leikaraskap, var að forðast hættulega tæklingu frá Pena. Frekar skrítinn dómur.
25 Ola Toivonen (Malmö) á skot sem er varið
Skotið beint úr aukaspyrnunni fer í varnarvegg Víkinga.
24
Malmö fær aukaspyrnu á stórhættulegum stað. Ekroth aftur brotlegur, verður að fara gætilega.
23 Oliver Ekroth (Víkingur R.) fær gult spjald
Fer utan í Christiansen þegar boltinn var ekki nálægt.
22
Moisander fór utan í Halldór Smára í hornspyrnunni, vítaspyrnulykt af þessu en Víkingar ekki mikið að mótmæla.
21 Víkingur R. fær hornspyrnu
Hættuleg spyrna hjá Pablo sem endranær en Malmö kemur boltanum frá með naumindum.
16 MARK! Martin Olsson (Malmö) skorar
Malmö tekur forystuna. Birmancevic leggur boltann út á Christiansen sem hittir boltann engan veginn, þaðan berst hann til Olsson sem tekur hægri fótar skot sem Þórður virðist ekki ætla að eiga í neinum vandræðum með en illu heilli fer boltinn af Júlíusi, breytir þannig um stefnu og hafnar í nærhorninu. Slysalegt.
16 Júlíus Magnússon (Víkingur R.) á skot framhjá
Enn er brotið á Kristali Mána og enn tekur Pablo frábæra aukaspyrnu, nú utan af vinstri kanti, en skotið hjá Júlíusi með hnénu fer framhjá. Berget náði aðeins að byrgja honum sýn.
14 Martin Olsson (Malmö) á skalla sem fer framhjá
Fær fyrirgjöfina frá Birmancevic, Halldór Smári rekur höfuðið í hann, tekur skallann en hann fer talsvert framhjá nærstönginni.
13
Ekroth kemur boltanum í netið með stórkostlegum skalla eftir aukaspyrnu Punyed en illu heilli er hann dæmdur rangstæður. Skallinn fór rakleitt upp í markvinkilinn!
12 Anders Christiansen (Malmö) fær gult spjald
Kemur allt of seint í Kristal Mána og hamrar hann niður.
10 Karl Friðleifur Gunnarsson (Víkingur R.) á skot sem er varið
Pablo kemur boltanum á Karl Friðleif sem gerir frábærlega í að koma sér í skotfæri innan teigs en Hadzikadunic kemst naumlega fyrir vinstrifótar skotið!
9 Malmö fær hornspyrnu
Víkingar koma henni frá.
7
Laglegur spilkafli hjá Víkingum þar sem Kristall Máni er að komast í álitlega stöðu í teignum en gefur boltann þegar hann hefði betur skotið og sóknin rennur að lokum út í sandinn.
5
Víkingur heldur boltanum vel um þessar mundir, Karl Friðleifur á hættulega fyrirgjöf inn á teiginn en Hadzikadunic kemur boltanum frá.
3 Ola Toivonen (Malmö) á skalla sem fer framhjá
Dauðafæri! Berget með frábæra fyrirgjöf á Toivonen sem nær skallanum af stuttu færi en hann smýgur framhjá stönginni!
2
Kristall Máni fær aukaspyrnu á hættulegum stað. Pablo tekur hana, gefur fyrir á fjærstöngina og Hansen brýtur svo á Berget.
1 Leikur hafinn
Víkingur byrjar með boltann.
0
Leikmenn eru mættir inn á völlinn, þennan flotta völl sem tekur 22.500 áhorfendur, og það fer allt að verða til reiðu.
0
Sem kunnugt er stýrir Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari og leikmaður Víkings, Svíþjóðarmeisturum Malmö.
0
Ingvar Jónsson er á varamannabekk Víkings. Hann hefur verið tæpur vegna meiðsla undanfarnar vikur en hefur þrátt fyrir það setið á bekknum. Kyle McLagan meiddist í síðasta leik en er sömuleiðis á varamannabekknum.
0
Hjá Malmö vantar þrjá sterka leikmenn. Markaskorarinn mikli, sænski landsliðsmaðurinn Isaac Kiese Thelin, meiddist á dögunum. Annar sænskur landsliðsmaður, miðjumaðurinn Oscar Lewicki, er einnig fjarri góðu gamni og danski kantmaðurinn Sören Rieks sömuleiðis.
0
Arnór Borg Guðjohnsen er í fyrsta skipti í leikmannahópi Víkings á tímabilinu. Hefur hann verið að glíma við meiðsli um nokkurra mánaða skeið.
0
Seinni leikurinn fer fram á Víkingsvellinum næsta þriðjudag, 12. júlí. Sigurliðið í þessari viðureign mætir sigurliðinu í einvígi Ballkani frá Kósóvó og Zalgiris frá Litháen í 2. umferð keppninnar. Tapliðið fer yfir í Sambandsdeildina og leikur þar við tapliðið úr einvígi The New Saints frá Wales og Linfield frá Norður-Írlandi.
0
Malmö og Víkingur leika fyrri leik sinn í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar karla 2022-23 á Eleda-leikvanginum í Malmö. Þetta er fyrsti leikur Malmö í keppninni en Víkingar þurftu að fara í forkeppni þar sem þeir unnu Levadia Tallinn frá Eistlandi 6:1 og Inter d'Escaldes frá Andorra 1:0.
Sjá meira
Sjá allt

Malmö: (3-5-2) Mark: Johan Dahlin. Vörn: Lasse Nielsen, Dennis Hadzikadunic, Niklas Moisander (Felix Beijmo 56). Miðja: Jo Inge Berget, Erdal Rakip (Hugo Larsson 80), Anders Christiansen (Sebastian Nanasi 71), Sergio Pena, Martin Olsson (Jonas Knudsen 71). Sókn: Ola Toivonen (Samuel Adrian 71), Veljko Birmancevic.
Varamenn: Ismael Diawara (M), Viktor Andersson (M), Eric Larsson, Jonas Knudsen, Felix Beijmo, Malik Abubakari, Matej Chalus, David Edvardsson, Hugo Larsson, Samuel Adrian, Patriot Sejdiu, Sebastian Nanasi.

Víkingur R.: (4-3-3) Mark: Þórður Ingason. Vörn: Karl Friðleifur Gunnarsson, Oliver Ekroth, Halldór Smári Sigurðsson, Logi Tómasson (Davíð Örn Atlason 57). Miðja: Júlíus Magnússon, Pablo Punyed, Viktor Örlygur Andrason. Sókn: Erlingur Agnarsson (Ari Sigurpálsson 78), Nikolaj Hansen (Helgi Guðjónsson 80), Kristall Máni Ingason.
Varamenn: Ingvar Jónsson (M), Kyle McLagan, Helgi Guðjónsson, Gísli Gottskálk Þórðarson, Arnór Borg Guðjohnsen, Ari Sigurpálsson, Birnir Snær Ingason, Davíð Örn Atlason, Bjarki Björn Gunnarsson.

Skot: Malmö 27 (20) - Víkingur R. 4 (3)
Horn: Víkingur R. 2 - Malmö 10.

Lýsandi: Gunnar Egill Daníelsson
Völlur: Eleda Stadion, Malmö
Áhorfendafjöldi: 11.830

Leikur hefst
5. júlí 2022 17:00

Aðstæður:
Í Malmö er 19 stiga hiti, létt gola og örlítil úrkoma. Grasvöllurinn stórglæsilegur.

Dómari: Dumitri Muntean, Moldóvu
Aðstoðardómarar: Vlad Lifciu og Victor Mardari, Moldóvu

mbl.is

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
04.04 16:45 Ísland : Noregur
04.04 19:00 Sviss : Frakkland
08.04 16:45 Ísland : Sviss
08.04 18:00 Noregur : Frakkland
30.05 18:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
03.06 18:00 Ísland : Frakkland
03.06 18:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
04.04 16:45 Ísland : Noregur
04.04 19:00 Sviss : Frakkland
08.04 16:45 Ísland : Sviss
08.04 18:00 Noregur : Frakkland
30.05 18:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
03.06 18:00 Ísland : Frakkland
03.06 18:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert