Tveir leikir fóru fram í Bestu deild karla í fótbolta kl. 16 í dag. Á Akureyri mættust KA og ÍBV en sá leikur átti að byrja kl. 14. Honum var frestað um tvo tíma og virðist það orðin regla með leiki á Akureyri að það þurfi að fresta þeim um einhverja klukkutíma vegna vandræða með samgöngur.
Fyrir leik sat KA í fimmta sæti með átján stig en Eyjamenn voru á botni deildarinnar með fimm stig. Hvorugt lið hafði unnið leik í deildinni í síðustu fimm umferðum og höfðu samtals safnað fimm stigum í þeim. KA vann síðast deildarleik 15. maí en Eyjamenn voru án sigurs í deildinni.
Eftir mikla markasúpu og spennuþrunginn leik vann KA 4:3 en staðan var 3:2 fyrir ÍBV í hálfleik.
Gestirnir í ÍBV byrjuðu leikinn af miklum krafti og pressuðu KA stíft hátt uppi á vellinum. Skilaði það marki strax á 6. mínútu leiksins þegar Jose Sito komst inn í sendingu og renndi boltanum fram hjá Kristijan Jajalo í marki KA. Heimamenn svöruðu þessu með tveimur mörkum og voru komnir yfir á 18. mínútu. Ívar Örn Árnason jafnaði með skalla eftir horn og skömmu seinna skoraði Nökkvi Þeyr sjöunda mark sitt á tímabilinu. KA-menn gáfu svo víti í næstu sókn ÍBV. Ívar Örn Árnason fékk á sig víti en boltinn átti að hafa farið í hönd hans inni í teig. Í samtali við blaðamann eftir leik staðfesti Ívar Örn að boltinn hafi strokist við höndina á sér. Jose Sito skoraði af öryggi og jafnaði í 2:2. Liðin skiptust svo á að sækja og var KA tvisvar nærri því að skora. ÍBV átti lokasókn fyrri hálfleiks og þá kom þriðja mark þeirra. Arnar Breki Gunnarsson komst inn fyrir vörn KA og hann renndi boltanum á Halldór J. S. Þórðarson sem var á undan varnarmanni KA og skilaði honum í netið. ÍBV var því 3:2 yfir í hálfleik, sem bauð upp á mistök og fullt af mörkum.
ÍBV hélt áfram að hrella KA-menn með hápressu í byrjun seinni hálfleiks og skilaði það næstum marki þegar Kristijan Jajalo átti feilsendingu beint á Alex Frey Hilmarsson, sem var nánast einn fyrir framan mark KA. Skot hans fór framhjá markinu og sluppu heimamenn þar með skrekkinn. KA jafnaði svo leikinn í 3:3 þegar Daníel Hafsteinsson stangaði boltann í markið eftir fyrirgjöf af vinstri kantinum.
Síðan var hreinlega barist til síðasta blóðdropa á báðum endum vallarins. Lítið var um færi en baráttan þeim mun meiri. KA skoraði sigurmarkið þegar kortér var eftir af leiknum og var þar að verki Elfar Árni Aðalsteinsson. Þá hreinlega tættu KA-menn vörn ÍBV í sundur og Elfar Árni rak smiðshöggið með hælspyrnu.
Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og gengu því Eyjamenn sársvekktir af velli eftir harða baráttu. KA kreisti fram sigur og kom sér upp í þriðja sætið en ÍBV er enn á botninum.
Það þarf engan að undra að þessi leikur hafi verið skemmtilegur og spennandi. Hvort lið tók forustu tvisvar í leiknum og mátti alltaf eiga von á marki. Eyjamenn voru yfir í baráttunni inni á miðjum vellinum og voru mun ákafari í leik sínum. Pressa þeirra olli KA miklum vandræðum og var Arnar Breki Gunnarsson sérlega erfiður heimamönnum. Það sem hann hljóp og djöflaðist. Aðrir leikmenn skiluðu sínu virkilega vel og getur Hermann Hreiðarsson þjálfari ekki annað en verið hreykinn af vinnusemi leikmanna. KA-menn fengu hreinlega engan frið til að spila sinn leik en þegar þeir komust fram á völlinn voru þeir oft hættulegir. Andri Snær Stefánsson kom inn á í hálfleik hjá KA og færði það liðinu ákveðna ró og festu. KA-menn sýndu gæði sín nógu oft í leiknum til að landa sigrinum og sigurmark þeirra verður lengi í minnum haft. Þar sýndu Húsavíkurfélagarnir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Elfar Árni Aðalsteinsson mikla snilli. Hrannar Björn Steingrímsson byrjaði leikinn hjá KA eftir að hafa verið frá vegna meiðsla í ár.