Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur tilkynnt um ráðningu Króatans Luka Jagacic sem nýs yfirmanns knattspyrnumála hjá félaginu. Tekur hann við starfinu af Sigurði Ragnari Eyjólfssyni sem mun nú alfarið einbeita sér að þjálfun karlaliðsins.
Luka hefur verið búsettur hér á landi frá árinu 2013 þar sem hann lék með Selfossi, Njarðvík og Reyni frá Sandgerði sem leikmaður.
Hann hætti þá nýverið þjálfun Reynismanna, sem sitja á botni 2. deildar karla.
„Við viljum þakka Sigga Ragga fyrir frábært starf sem yfirmaður knattspyrnumála!
Knattspyrnudeildin er virkilega spennt fyrir því að fá Luka í þetta skemmtilega starf og bindur miklar vonir til hans. Velkomin til Keflavíkur Luka,“ sagði meðal annars í tilkynningu knattspyrnudeildar Keflavíkur.