Óstöðvandi Víkingar unnu 3:2 sigur á ÍA í 12. umferð Bestu deildar í knattspyrnu í Fossvoginum fyrr í dag.
Víkingar byrjuðu fyrri hálfleikinn af miklum krafti og strax á annarri mínútu fékk Logi Tómasson sendingu frá Ara Sigurpálssyni inn í gegn og skaut en Árni Snær Ólafsson varði vel í marki ÍA.
Logi svaraði fyrir klúðrið ellefu mínútum síðar er hann vann boltann á miðsvæðinu, klobbaði Jón Gísla Eyland og smellti svo boltanum í fjærhornið neðra megin, óverjandi og Víkingar komnir 1:0 yfir.
Logi vann svo aukaspyrnu sjö mínútum síðar. Viktor Örlygur Andrason steig til að taka aukaspyrnuna og setti boltann í netið, 2:0 og heimamenn komnir í þægilega forystu eftir 20. mínútna leik.
Skagamenn komust aðeins inn í leikinn er leið á fyrri hálfleikinn en fleiri urðu mörkin ekki og hálfleikstölur því 2:0 fyrir Víking.
Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað en á 67. mínútu vann Eyþór Aron Wöhler boltann af Viktori og sendi hann svo á Inga Þór Sigurðsson sem setti knöttinn laglega í netið, 2:1 og ÍA komið aftur inn í leikinn.
Það endist ekki lengi þar sem Erlingur Agnarson kom Víkingum aftur tveimur mörkum yfir fjórum mínútum síðar. Þá fékk hann boltann frá Loga og setti hann einnig laglega í fjærhornið, 3:1 og Víkingar aftur komnir í góða stöðu.
Ingi Þór skoraði svo sitt annað mark á 87. mínútu og glæsilegt var það. Þar skaut hann fyrir utan teig hægra megin og boltinn fór beint í fjærhornið, glæsilegt mark og spenna komin í leikinn.
Fleiri urðu mörkin ekki og við stóð, 3:2 fyrir Víkingi.
Næsti leikur Víkings er gegn Malmö í Meistaradeildinni á sama velli á þriðjudaginn. Næsti leikur Víkings í deildinni er þó gegn FH í Hafnarfirði næsta laugardag.
ÍA fær Stjörnuna í heimsókn í næsta leik sínum á sunnudaginn í næstu viku.