Haraldur Björnsson, fyrirliði og markvörður Stjörnunnar, segir að Stjörnumenn hafi verið sjálfum sér verstir í kvöld, er þeir töpuðu 3:0 á heimavelli fyrir Leiknismönnum.
Hann segir að það hafi vantað nokkuð upp á leikpressu Stjörnunnar í kvöld. „Ef einn hleypur af stað og byrjar að pressa, þá þurfa ákveðnar hreyfingar að eiga sér stað, og þær eru til hálfs, verður mun einfaldara að spila út úr pressunni,“ segir Haraldur. Þá var hann virkilega ósáttur, líkt og fleiri í Stjörnuliðinu við að þriðja mark Leiknis hafi fengið að standa, en Stjörnumenn töldu að Mikkel Dahl hefði verið rangstæður. „Að fara inn í hálfleik með 3:0 er virkilega erfitt.“
Hann segir að í hálfleik hafi verið rætt um að reyna að sækja stig með öllum mætti í síðari hálfleik. „Já, því að það er hálfur leikurinn eftir. Ef þeir gátu skorað þrjú í fyrri, þá hljótum við að geta skorað þrjú í þeim seinni og við ætluðum að koma út af fullum krafti og ná inn einu marki í einu og sjá hvert við kæmust, en við vissum líka að þeir myndu leggjast lágt og að þeir eru mjög góðir í því að verja forystu.“
Haraldur segir að liðið muni eflaust geta lært ýmislegt af leiknum í kvöld. „Það er þjálfaranna að greina bæði góðar og slæmar frammistöður, og menn læra hvað mest af slæmum frammistöðum,“ segir Haraldur. „Það er einfalt að eiga góðan leik, en menn verða að læra af leikjunum og þegar menn fá á sig þrjú mörk er margt sem klikkar. Við þurfum bara að fara yfir hvað gerðist og bæta það fyrir næsta leik,“ segir Haraldur að lokum.