Keflavík hafði betur gegn Val, 3:0, í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Með sigrinum fór Keflavík upp fyrir KR og upp í sjötta sæti þar sem liðið er með 17 stig. Valur er enn í fimmta sæti með 20 stig.
Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af í fyrri hálfleik og skiptust liðin á að reyna að sækja, en illa gekk að skapa virkilega gott færi. Patrick Pedersen fékk þó eitt slíkt fyrir Val á 15. mínútu þegar hann slapp einn í gegn og var í tvígang nálægt því að skora. Fyrst varði Sindri Kristinn Ólafsson vel frá honum og síðan Nacho Heras.
Leikurinn gjörbreyttist stundarfjórðungi síðar þegar Sebastian Hedlund, varmarmaður Vals, fékk beint rautt spjald og Keflavík fékk víti. Hedlund togaði þá Patrik Johannesen niður þegar Færeyingurinn var við það að skora. Johannessen varð ekki á nein mistök á vítapunktinum og kom Keflavík yfir.
Þrátt fyrir liðsmuninn var Valur meira með boltann eftir markið og sótti nokkuð stíft á meðan Keflavík reyndi að beita skyndisóknum. Mörkin urðu þó ekki fleiri í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 1:0, Keflavík í vil.
Adam Ægir Pálsson var nálægt því að tvöfalda forskot Keflavíkinga snemma í seinni hálfleik en Frederik Schram varði mjög vel frá honum í teignum. Frederik hélt áfram að verja út hálfleikinn, oft virkilega vel þegar Keflvíkingar komust í góð færi.
Keflvíkingar voru mun sterkari í seinni hálfleik og sköpuðu sér fullt af færum. Hinsvegar gekk illa að nýta þau þar sem Frederik var í stuði í markinu á milli þess sem gestirnir hittu ekki Valsmarkið.
Annað markið kom þó loks á 75. mínútu þegar Keflvíkingar nýttu skyndisókn afar vel. Rúnar Þór Sigurgeirsson sendi á Adam Ægi sem vippaði boltanum afar snyrtilega yfir Frederik í markinu og í netið.
Rúnar og Adam skiptu um hlutverk tíu mínútum síðar. Þá sendi Adam Rúnar einan í gegn og Rúnar skoraði af öryggi framhjá Frederik og breytti stöðunni í 3:0 og þar við sat.