Öruggur útisigur Leiknismanna

Þórarinn Ingi Valdimarsson Stjörnumaður og Mikkel Dahl framherji Leiknis eigast …
Þórarinn Ingi Valdimarsson Stjörnumaður og Mikkel Dahl framherji Leiknis eigast við í Garðabænum í kvöld. Dahl skoraði þriðja mark Leiknis. mbl.is/Hákon

Leiknismenn unnu öruggan útisigur á Stjörnunni, 3:0, þegar liðin mættust í 12. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Samsung-vellinum í kvöld.

Gestirnir úr Breiðholtinu hófu leikinn í kvöld af miklu kappi, og virtust þeir vera tilbúnir í leikinn frá fyrstu mínútu. Eftir sex mínútur voru Leiknismenn búnir að uppskera þrjár hornspyrnur, og svo fór að Bjarki Aðalsteinsson, fyrirliði gestanna, leiddi sitt lið með góðu fordæmi og skoraði með góðu skoti af markteig eftir þriðju hornspyrnuna. 

Stjörnumenn töldu sig hafa jafnað metin strax í næstu sókn, þegar Adolf Daði Birgisson kom boltanum í netið eftir laglegt spil Ísaks Andra Sigurgeirssonar, en Adolf hafði fengið boltann í höndina á sér í aðdraganda marksins, sem var því ekki dæmt gilt. 

Leiknismenn efldust við þetta ef eitthvað var og áttu þeir trekk í trekk fínar sóknir, en náðu ekki að reka smiðshöggið á þær. 

Á 33. mínútu dró til tíðinda. Viktor Freyr Sigurðsson, markmaður Leiknismanna, hóf þá sóknarlotu þar sem Mikkel Jakobsen óð upp vinstri kantinn og gaf boltann fyrir inn í teiginn. Þar var Róbert Hauksson, sem hafði átt nokkur fín færi áður, mættur á markteiginn og söng boltinn í neti Stjörnumanna. 

Leiknismenn bættu við þriðja markinu á 42. mínútu, en þá var Mikkel Dahl kominn einn á auðum sjó gegn Haraldi Björnssyni, markmanni Stjörnunnar, en Stjörnumenn vildu meina að hann hefði verið rangstæður, þar sem Róbert hefði flikkað boltanum áfram á hann. Ívar Orri Kristjánsson, góður dómari leiksins, og aðstoðarmenn hans mátu það hins vegar sem svo að svo hefði ekki verið, og markið því gott og gilt. 

Stjörnumenn hófu síðari hálfleik af miklum krafti, og fengu þeir tvö dauðafæri til að minnka muninn á 50. og svo 53. mínútu. Skall þar hurð nærri hælum fyrir Leiknismenn, og hefði mark á þeim tímapunkti eflaust getað breytt einhverju um gang leiksins. Þess í stað tvíefldust Leiknismenn á meðan sóknir Garðbæinga enduðu oftar en ekki á varnarmönnum gestanna, sem stóðu sem klettar í hafinu. Daníel Finns Matthíasson og Ólafur Karl Finsen fengu þó ágæt tækifæri til að klóra í bakkann, en allt kom fyrir ekki, og Leiknismenn sigldu öruggum sigri í höfn.

Fyrir leikinn var Stjarnan í fjórða sæti með 20 stig, og eru það áfram eftir þennan leik. Leiknir fór hins vegar úr næst neðsta sætinu upp yfir Skagamenn, og eru nú með 10 stig eftir 12 leiki. 

Leiknismenn komu inn í leikinn af miklum krafti og ákefð, sem aftur dugði þeim til þess að skora þrjú mörk og tryggja sér stigin þrjú. Það eru fá lið í deildinni sem vilja mæta þeim í því stuði sem þeir sýndu í kvöld. Stjörnumenn munu hins vegar vilja gleyma leiknum í kvöld sem fyrst, enda fór allt úrskeiðis sem hægt var. 

Stjarnan 0:3 Leiknir R. opna loka
90. mín. Uppbótartímjnn er hér fjórar mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert