Keflavík og Leiknir unnu nánast ótrúlega útisigra á Val og Stjörnunni í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöld. Hver hefði spáð því fyrir mót að tvö lið í neðri hlutanum myndu vinna 3:0 útisigra á tveimur liðum úr efri hlutanum – og það á sama kvöldinu?
Sigurganga Keflvíkinga er orðin mögnuð síðustu vikurnar. Eftir mjög slæma byrjun á mótinu þar sem allt stefndi í erfiða fallbaráttu hafa þeir fengið þrettán stig úr síðustu fimm leikjunum og eru nú komnir uppfyrir KR-inga og í hið eftirsótta sjötta sæti.
Leiknir vann ekki leik í fyrstu tíu umferðunum en nú eru komnir tveir sigrar í röð og Breiðholtsliðið vann sannfærandi útisigur á Stjörnunni, 3:0. Breiðhyltingar eru þar með komnir uppfyrir Skagamenn og úr fallsæti í fyrsta sinn á tímabilinu.
Framarar komu kannski ekki eins á óvart með því að sigra FH, 1:0, því liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn en þeir komu á óvart með því að halda marki sínu í hreinu í fyrsta skipti í tólf leikjum á þessu keppnistímabili.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag ásamt M-gjöfinni fyrir leikina þrjá